138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

sveitarstjórnarlög.

452. mál
[17:17]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir það hvernig hann bregst við þessu frumvarpi, m.a. með því að fagna því að það skuli koma fram. Eins og hann segir sjálfur er frumvarpið sannarlega mikilvægt og þrátt fyrir að heildarskoðun standi yfir vænti ég þess að í samgöngunefnd verði þetta unnið fljótt og vel. Þetta er unnið í mikilli samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga sem ég vil þakka sérstaklega fyrir mikið og gott samráð og samvinnu á vettvangi sveitarstjórnarmála.

Hv. þingmaður spyr mig annars vegar út í hagstjórnarsamninginn. Þá er því til að svara að vinna sérfræðings sem ég gat um í ræðu minni stendur yfir og við höfum nýlega fallist á að það hefði þurft að bæta einum mánuði við þá vinnu. Sú vinna er í gangi og ég er sæmilega bjartsýnn á að þetta mál fari að fá farsæla lausn og sveitarfélögin séu að vinna að því með okkur. Ég ítreka enn einu sinni að það er góð samvinna við sveitarfélögin hvað þetta varðar líka.

Varðandi aðra spurninguna sem hv. þingmaður setur fram, hvort banna eigi sveitarfélögunum að taka erlend lán, þá við getum sagt miðað við fengna reynslu að það væri óskandi að mörgum á Íslandi hefði verið bannað að taka erlend lán undanfarin ár. Hvort þetta kemur upp skal ósagt látið en auðvitað kemur þetta allt til skoðunar í þeirri heildarendurskoðun sem er í gangi. Einhvers staðar tel ég mig hafa heyrt frá einhverju landi að þar væri bannað að taka erlend lán en ég hygg að það land sé með sterkari og betri gjaldmiðil en hið litla Ísland, þ.e. íslensku krónuna sem hefur mátt þola ýmislegt undanfarið og við höfum fengið fréttir af í sjónvarpsfréttum undanfarið. Það er verkefni sem þarf að fara yfir. Svo getum við líka sagt, virðulegi forseti, af því að ég er þeirrar skoðunar að við eigum að taka upp evru sem allra fyrst, að kannski megi bjarga þessu með því að við flýtum okkur að taka upp evruna.

Öðrum spurningum sem hv. þingmaður lagði fram mun ég reyna að svara í mínu seinna andsvari.