138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

sveitarstjórnarlög.

452. mál
[17:21]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins að því sem ég gat ekki svarað í mínu fyrra andsvari um kostnaðarútreikninga. Við vitum að það eru til ákveðnar reglur um þetta en einmitt í þessari nefndarvinnu og samráðsnefndarvinnu sem við höfum talað um ræða menn um hvernig setja skuli þetta betur og fastar fram, þannig að þetta sé ekki undantekning eða gert af og til heldur verði hreinlega skylda að kostnaðarmeta hvað varðar hvaða útgjöld þetta hefur fyrir sveitarfélögin. Þetta er auðvitað liður í hinni góðu hagstjórn sem við ætlum okkur að koma á í samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Oft fellur það í hlut sveitarstjórnarráðherra að spyrja út í hvaða kostnaðaráhrif þetta hafi á sveitarfélög og gæta þess sem þar er. Þess vegna skulum við vona að þetta verði sett og skrifað betur inn í lögin sem ég gat um að eru í endurskoðun.

Varðandi það sem hv. þingmaður talaði um að taka lán í erlendri mynt. Ég hygg að það komi inn í þessa hagstjórnarvinnu vegna þess að það er kannski, eins og hv. þingmaður sagði, of langt í að við tökum upp evru. Við skulum snúa okkur að núinu og halda okkur við það. Þessi atriði sem hv. þingmaður nefndi, lágir vextir og allt þetta — það var eins með sveitarfélögin og almenning og fyrirtæki í landinu að bankastofnanir otuðu þessu að öllum, þessum erlendu lánum sem hafa svo farið úr öllum böndum við hrun krónunnar. Við skulum vona að okkur takist líka að sigla því máli í höfn en hvort það verður lagt blátt bann við því vil ég ekki úttala mig um sem mína skoðun núna. Ég hef fulla trú á því að sá ágæti hópur sem er að vinna að þessum málefnum komi með farsælar og góðar tillögur í þessum efnum sem ýmsum öðrum.