138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

sveitarstjórnarlög.

452. mál
[17:30]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil kveðja mér hljóðs til að fagna sérstaklega því frumvarpi sem hér er tekið til umræðu. Þetta eru orð í tíma töluð sem hér standa. Kosningar til sveitarstjórna eru í nánd og ég hef miklar áhyggjur af því að þannig sé háttað um sveitarfélög víðs vegar um landið að menn haldi inni bumbunni, ef svo má að orði komast, að staðan sé í raun og veru mun verri en við kannski áttum okkur á núna. Sveitarstjórnarkosningarnar gera það að verkum að sveitarstjórnarmenn reyna, a.m.k. þeir sem halda utan um veskið hverju sinni, að gera ekki minna úr hlutunum en efni standa til og reyna kannski frekar að fegra myndina ef eitthvað er. Ég hef áhyggjur af því hvernig útlitið verður að loknum sveitarstjórnarkosningum þegar menn fara raunverulega að skoða rekstur þessara sveitarfélaga. Þær reglur sem hér eru kynntar miða að því að auka til mikilla muna kröfur um upplýsingagjöf af hálfu sveitarfélaganna. Eins og lögin eru núna er sveitarfélögum aðeins skylt að senda ráðuneytinu ársreikning, fjárhagsáætlun og þriggja ára áætlun en hér er gengið mun lengra, eftirlitsnefnd fær mjög skýrar heimildir til að kalla eftir upplýsingum og í raun mun skýrari heimildir en þær sem nú eru í gildi. Jafnframt er starfsmönnum sveitarfélags skylt að veita nefndinni allar þær upplýsingar sem starfi þeirra tengjast og nefndin óskar eftir.

Ég vil líka gera að umtalsefni hvort ekki sé ástæða til þess í þeirri endurskoðun sem ég veit að nú fer fram á sveitarstjórnarlögunum að sett verði sérstakt skuldaþak sveitarfélaga, þannig að menn horfi til þess að það fari ekki umfram ákveðið hlutfall af skatttekjum. Eins hefur sveitarfélögum verið mjög frjálst eins og menn vita að reka sig með halla. Er ekki ástæða til að huga að því og þrengja það sérstaklega og eins að skoða hina svokölluðu rekstrarleigusamninga sem við vitum að eru víðs vegar í gildi og fela í sér í mörgum tilfellum mjög háar og miklar skuldbindingar sem eru utan efnahagsreiknings og gerir það mjög erfitt fyrir sveitarstjórnarráðuneytið t.d. að ná utan um stöðu sveitarfélaganna til samanburðar? Ég nefni þar t.d. sveitarfélög eins og Álftanes og Reykjanesbæ sem eru í broddi fylkingar í þessum efnum.

Ég þykist vita að mikil vinna sé í gangi í ráðuneytinu og mér er kunnugt um mikið og öflugt og aukið samstarf ráðuneytis og sveitarfélaganna og er það vel. Við erum m.a. að sjá afrakstur þess hér. Mig langar til að biðja hæstv. sveitarstjórnarráðherra að fara kannski aðeins inn á í máli sínu á eftir tekjustofnanefnd og vinnuna þar. Hver er staðan í framhaldinu á sveitarfélögunum? Koma þau til með að þurfa á einhvers konar greiðsluaðlögun að halda eins og heimilin? Að endingu vil ég brýna hæstv. ráðherra til áframhaldandi verka á sviði sameiningar sveitarfélaga vegna þess að ég held að það sé lykilatriði í þessum efnum að sveitarfélög hér á landi séu sjálfbær og standi undir sér. Ég held að þannig sé hagsmunum íbúa og borgara þessa lands best varið að menn horfi fyrst og fremst á þjónustustig sveitarfélaga í landinu fremur en það að menn séu af tilfinningasemi að halda í minni sveitarfélög. Fyrst og fremst þurfa sveitarfélögin að geta staðið undir viðunandi þjónustustigi, almennilegum skólum og aðbúnaði sem er sæmandi. Það er lykilatriði og skiptir fólk langmestu máli. Ég mundi því vilja biðja hæstv. ráðherra að koma kannski inn á stöðuna á sameiningarmálum sveitarfélaganna í lokaræðu sinni í þessari umræðu.

Að endingu, ég fagna þessu frumvarpi, þetta er mikilvægt fyrsta skref til að ná utan um stöðu sveitarfélaganna sem ég held að í mjög mörgum tilfellum sé mun alvarlegri en við gerum okkur grein fyrir á þessari stundu.