138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

framhaldsfræðsla.

233. mál
[18:19]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. formanni menntamálanefndar Oddnýju G. Harðardóttur fyrir framsögu hennar. Eins og fram kom í máli hv. þingmanns ríkti eindrægni í menntamálanefnd hvað varðar þetta frumvarp og þrátt fyrir að sú sem hér stendur hafi verið fjarstödd þegar nefndarálitið var afgreitt tekur hún engu að síður undir hvert orð sem fram kemur hér.

Þetta er merkur áfangi. Við erum að ljúka heildarendurskoðun á lagaumhverfi íslensks menntakerfis. Við höfum lokið endurskoðun á leik-, grunn-, framhalds- og háskólastigi og hér er, eins og fram kom í ræðu hv. formanns menntamálanefndar, fimmta grunnstoðin vonandi að verða að veruleika. Það skiptir afar miklu máli að þetta frumvarp verði að lögum, ekki bara vegna þeirrar óformlegu menntunar sem framhaldsfræðslan veitir utan skólakerfisins heldur ekki síður vegna þess að nú er horft til þess að raunfærnimat einstaklinga verði metið. Það sýndi sig í heimsókn menntamálanefndar til Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins hve merkt starf er í raun og veru innt af hendi á þessum stöðum, hvernig aðilar hafa nú í þessu árferði ákveðið að snúa til baka, fengið raunfærnimat, oftar en ekki gengið inn í sínar iðngreinar og eru langt komnir með að ljúka sínu námi. Hér hefur verið fyrir hendi kerfi sem gerir fólki sem einhverra hluta vegna féll úr námi á sínum tíma kleift að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið fyrr á lífsleiðinni og ljúka menntun sinni, námi í iðngrein eða einhverju öðru sem hugur þeirra stóð til. Verkefnin sem unnin eru í framhaldsfræðslunni hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, sem og hjá öllum símenntunarstöðvum vítt og breitt um landið, verða núna með þeim hætti að við erum að byggja brú yfir í hefðbundið skólastarf. Það er verið að færa og gera nám innan framhaldsfræðslunnar einingabært svo það nýtist fólki inn í hið hefðbundna skólakerfi, ef við getum orðað það svo.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Hér er lagður grunnur að hærra menntunarstigi þjóðarinnar. Samkvæmt skýrslu OECD stöndum við okkur ekki mjög vel hvað það varðar en hér er lagður grunnur að því. Fimmta grunnstoð íslensks menntakerfis verður vonandi að veruleika með samþykki þessa frumvarps. Herra forseti. Ég fagna þeim áfanga.