138. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2010.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að fagna ummælum sem hv. þm. Helgi Hjörvar lét falla fyrr í umræðunni um að neyða þyrfti bankana til að nýta svigrúmið sem þeir hafa til að færa niður fasteignalán heimilanna, og bílalán líka. Ég er hins vegar búin að gefast algerlega upp á því að reyna að komast að því sem formaður viðskiptanefndar hversu mikið þetta svigrúm er. Ég er þeirrar skoðunar að það eina sem dugi sé að þingheimur setji lög, eða hóti a.m.k. að setja lög sem þvinga bankana til að koma hingað hlaupandi og segja: Nei, við höfðum ekki svona mikið svigrúm, þannig að við komumst að því hvert þetta svigrúm er. Lögin þyrftu að segja m.a. til um að það ætti að færa verðtryggð lán niður um 20–30% og gengistryggð lán niður um 50–70%.

Hvað varðar bónuskerfi í bankakerfinu finnst mér algerlega ótímabært að innleiða bónus fyrir bankastarfsmenn á þessum tíma um leið og við erum að endurreisa bankakerfið, sérstaklega þar sem bónuskerfið sem var við lýði fyrir bankahrun leiddi til þess að margir bankastarfsmenn freistuðust til að setja eigin hagsmuni ofar almannahagsmunum. Þeir ráðlögðu fólki m.a. að taka gengistryggð lán þrátt fyrir áhættuna sem því fylgir. Ég hef sem formaður viðskiptanefndar verið beðin um að kalla fulltrúa bankanna á fund viðskiptanefndar auk þess sem við gerum ráð fyrir að hitta líka fulltrúa Bankasýslunnar til að ræða afstöðu nefndarinnar til hugmyndarinnar um að innleiða bónuskerfi. Það er von mín að fundurinn verði til þess að bankarnir geri sér grein fyrir því að við sættum okkur ekki við (Forseti hringir.) nýtt bónuskerfi á þessum tíma. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)