138. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2010.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Frú forseti. Málefni Húnvetninga eru ein allra dapurlegasta birtingarmynd hrunsins þar sem stór hluti samfélagsins er yfirskuldsettur. Við sjáum víða í samfélaginu merki um slæma stöðu heimilanna en kannski hvergi jafnskýra og þar.

Málefni sparisjóðakerfisins eru flókin, þau eru í úrvinnslu og enn þá verið að vinna að úrlausnum þessara mála. Forsendur þess að hægt væri að ráðast í þessa aðlögun voru breytingar á lögunum sem við gerðum í sumar. Átta sjóðir sóttu um framlag frá ríkinu til að halda starfsemi sinni áfram en það var ekki nóg að fá fjármagn frá ríkinu heldur þurfti að semja við kröfuhafa um að breyta kröfum í stofnfé, víkjandi lán eða afskrifa. Þetta er flókið samningsferli enda koma margir að.

Það er ljóst að það er hins vegar betri kostur fyrir ríkið að koma sparisjóðunum til bjargar en að láta þá falla. Það er samdóma álit allra og eftir því er unnið. Lögin í sumar gáfu okkur heimild til að færa stofnfé niður, enda er staða stofnfjáreigenda erfið, sérstaklega í tilviki þeirra sem slógu lán til að kaupa stofnfé í sparisjóði. Við getum hins vegar ekki vikið okkur undan þeirri staðreynd að staða sjóðanna var í flestum tilvikum orðin neikvæð um meira en sem nemur stofnfénu sjálfu og þá er sjóðurinn tæknilega gjaldþrota og stofnféð glatað. Það hlýtur að vera spurningarmerki hvort ríkið geti lagt fram umtalsverða fjármuni og stofnfjáreigendur haldi eftir verðmætum sínum sem sannarlega eru glötuð því að þá er um gjöf að ræða úr hendi ríkisins. Þetta er mjög erfitt úrlausnarefni og flókið, en vonandi sjáum við úrlausn mála þannig að stofnfjáreigendur haldi eftir einhverjum hluta af stofnfé sínu vegna þess að það er mikilvægt í enduruppbyggingu kerfisins að halda einhverjum tengslum við nærumhverfi sitt.

Vandi sparisjóðakerfisins liggur nokkuð djúpt og við hljótum að spyrja okkur hvort það sé grundvöllur fyrir jafndreifðu sparisjóðakerfi og nú er. Ættum við ekki að íhuga að skera upp í þessu kerfi, sameina og um leið styrkja sparisjóðakerfið um allt land?