138. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2010.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir það sem komið hefur fram í umræðunni hjá mörgum hv. þingmönnum, að það er mjög mikilvægt að afskriftasvigrúm það sem nýju bankarnir hafa með því að kaupa kröfur frá gömlu bönkunum gangi til heimilanna í landinu. Það er búið að ræða það hér í marga mánuði í þinginu og ég fagna því sérstaklega að margir hv. stjórnarþingmenn eru farnir að heyra þennan söng. Þetta er vegferð sem við eigum að fara í saman og það er mjög mikilvægt að þetta gangi eftir.

Ég vil líka beina því til formanns hv. viðskiptanefndar að skoða sérstaklega hvernig staðið var að færslu skuldabréfsins milli nýja og gamla bankans af hálfu gamla Landsbankans, þ.e. hluti af því sem innheimtist umfram fer í það að borga svokallað bónuskerfi. Það eru margar vikur síðan ég vakti athygli á þessu.

Ég kveð mér fyrst og fremst hljóðs vegna þess hve grafalvarleg staðan er í þjóðfélaginu og ég er margbúinn að tala um það hér í þingsölum að bæta við aflaheimildir og hef nefnt í því tilfelli að það þyrfti að bæta 40 þúsund tonnum við þorskkvótann. Það eitt og sér mundi skapa gríðarlega tekjuaukningu inn í samfélagið. Núna er ástandið þannig í sjávarbyggðunum að það eru allir bátarnir að stoppa, fiskvinnslufólkið er að fara heim á atvinnuleysisbætur, þetta er að gerast um allt land. Samt sem áður er ástandið í hafinu sem betur fer þannig að það er mokveiði alls staðar.

Það skilur enginn af hverju þetta er ekki gert. Það hefur heyrst að skýringin sem höfð er eftir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sé sú að Samfylkingin sé á móti því að þetta sé gert. Ég ætla ekki að leggja mat á hvort þetta er rétt haft eftir hæstv. ráðherra heldur vil ég bara beina þeirri spurningu til hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, sem er jú formaður fjárlaganefndar hvort þetta sé rétt. Við vinnum báðir m.a. að þessu í fjárlaganefnd núna og ef við förum ekki að skapa verðmæti inn í þjóðfélagið með þessum aðgerðum munum við þurfa að ganga mjög nærri ýmsum þáttum á næsta ári. Þá munu mörg sjúkrahús og skólar þurfa að fá á sig (Forseti hringir.) miklar skerðingar. Það er gríðarlega mikilvægt að menn setji hlutina í samhengi. Að lokum vil ég segja það, virðulegi forseti, að það sem ég tala fyrir mun jafnframt byggja upp þorskstofninn en ekki ganga á hann.