138. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2010.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég hef verið dálítið áttavillt í þessari umræðu því að það hljómar nánast eins og það séu kosningar í nánd. Getur það verið? Hérna koma stjórnarliðar upp og kalla eftir afskriftum skulda heimilanna og skamma ríkisstjórnina. Maður hugsar bara: Hvar eru þeir búnir að vera síðasta eina og hálfa árið? Alla vega er batnandi fólki best að lifa og allt það, þannig að ég fagna þessari umræðu.

Ég vildi hins vegar koma hér upp og benda á frétt sem hefur verið á Stöð 2 og RÚV og netmiðlum varðandi hugsanlegt stórfellt skattaundanskot, að það geti hugsanlega verið að gömlu bankarnir — og ekki bara gömlu bankarnir heldur þær fjármálastofnanir sem hafa verið starfandi á Íslandi, hafi ekki talið fram skattstofna sem nemur hundruðum milljörðum króna. Getur verið að ef við erum tilbúin að setja inn meiri peninga og leyfa skattrannsóknarstjóra að rannsaka þessi mál séum við mögulega komin með þá fjármuni sem við ætlum að skera niður á næsta ári, 50 milljarða?

Ég held að það hafi komið fram í hádegisfréttunum hjá RÚV í dag að skattrannsóknarstjóra sagði að það hefði ekki komið eitt einasta mál frá skila- og slitastjórnum gömlu bankanna til skattrannsóknarstjóra. Er ekki eitthvað að hérna? Hafa þeir ekki aðgang að öllum gögnum gömlu bankanna? Það er margt sem við þurfum virkilega að skoða.

Við höfum aðeins heyrt minnst á að skattrannsóknarstjóra ætlar sér ekki bara að skoða þessa aflögðu gjaldeyrissamninga heldur virðist vera að það séu líka mál sem tengjast kaupréttinum sem á að skoða, og við erum að ræða hér um kaupaukakerfið. Það kom hér einn stjórnarliði og sagði að það virtist vera eins og við hefðum ekkert lært. Ég spyr bara hvar viðkomandi var þegar ríkið var að semja við kröfuhafa Landsbankans. Þar kom náttúrlega fordæmið, þar komu skilaboðin til (Forseti hringir.) bankamanna um það að nú væri í lagi að fara fram á bónusa og kaupauka upp á nýtt. (Forseti hringir.) Ég bið því um að allt komi upp á borðið (Forseti hringir.) og að fjármálaráðherra upplýsi nákvæmlega um hvað er innifalið í þessum samningum um gamla Landsbankann og þann nýja.