138. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2010.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir að vekja athygli á mikilvægu hlutverki lífeyrissjóðanna varðandi atvinnuuppbyggingu í samfélagi okkar og minni á að það voru gefin mikil fyrirheit af hendi lífeyrissjóðanna um að koma með stórar fjárhæðir inn í atvinnuuppbyggingu í tengslum við stöðugleikasáttmálann sl. vor. Voru nefndir hundrað milljarðar króna í því sambandi.

Staðreyndin er sú, eins og forseti ASÍ benti á í ágætri ræðu á nýafstöðnu þingi Samtaka atvinnulífsins, að enn hafa engar efndir verið á þessu loforði, það hefur ekki ein einasta króna verið sett frá hendi lífeyrissjóðanna í nein verkefni. Þetta vekur mikla athygli því að það eru klárlega verkefni tilbúin á borðinu þar sem engin fyrirstaða er af hálfu stjórnvalda. Ég vil nefna sérstaklega eitt dæmi, Búðarhálsvirkjun, verkefni upp á allt að 30 milljarða kr. sem gæti skapað hér 800 störf einmitt á þeim tíma sem við þurfum helst á þeim að halda.

Þarna eru öll leyfi til staðar. Það er pólitísk samstaða um þetta verkefni og vilji er allt sem þarf. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur nefnt að verkefnafjármögnun sé þar skýr valkostur og ég skora á lífeyrissjóðina að standa nú við gefin fyrirheit og koma með peninga inn í þetta tiltekna verkefni. Það eru önnur verkefni sem stjórnvöld hafa sett í farveg, eins og uppbygging á fjölsóttum ferðamannastöðum, en síðan vil ég líka nefna, þannig að allrar sanngirni sé gætt, að það er ákveðin heimavinna sem við hér á þinginu eigum eftir að vinna og klára, sem er að ná þverpólitískri samstöðu um að útfæra veggjöld þannig að hægt sé að fara í brýnar stórframkvæmdir í vegamálum eins og tvöföldun Suðurlandsvegar og tvöföldun Vesturlandsvegar. Klárum þetta verkefni í góðri samstöðu á þinginu og þá eru þessi mál komin í mun betri farveg.

Aðalatriðið er þetta: Aðgerðir til þess að koma hér hlutum á hreyfingu kalla á víðtækt samstarf stjórnvalda, lífeyrissjóðanna og aðila vinnumarkaðarins. Þar verða allir að leggjast á eitt svo málin komist raunverulega (Forseti hringir.) á hreyfingu. Stjórnvöld hafa sínar skyldur í þeim efnum en lífeyrissjóðirnir einnig og nú er mál að hætta að benda hver á annan og hefjast handa við að koma hlutum í framkvæmd.