138. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2010.

þjónustu- og öryggisstig löggæslu á Íslandi.

[14:11]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga málefni. Eins og kom fram í upphafi stendur lögreglan frammi fyrir skertum fjárheimildum, það er einfaldlega niðurskurður sem við höfum þurft að mæta með einhverjum þeim ráðum sem við teljum forsvaranleg og skynsamleg. Það er líka rétt sem minnt er á, lögreglan nýtur trausts. Það er ekki að ástæðulausu að lögreglan nýtur trausts, það er vegna þess að hún innir verk sín af hendi með kostgæfni þannig að borgararnir treysta því að lögreglan sinni hlutverki sínu.

Og hvaða hlutverki á lögreglan að gegna? Jú, fyrir það fyrsta gegnir hún afar mikilvægu öryggishlutverki, þ.e. að gæta laga og reglu og réttaröryggis borganna, sinna neyðarútköllum og öðru í þeim dúr sem við teljum í okkar daglega lífi brýnt og að við getum ekki verið án. Við getum einfaldlega ekki rekið samfélag án lögreglu sem gætir að þessum þáttum. Við skulum hafa það alveg hugfast. Það er eitt af því sem kom svo glöggt fram í þessari skýrslu sem ég bað embætti ríkislögreglustjóra um að vinna, þegar menn horfa á grunnþjónustu lögreglu horfa menn fyrst og fremst til öryggishlutverksins, menn horfa til afbrotavarnahlutverksins og rannsóknarhlutverksins.

Það er rétt að lögregla innir af hendi mörg verkefni og kannski fleiri en hún ætti í raun og veru að gera. Það er vegna þess að lögreglu er svo vel treystandi. En þegar kemur að niðurskurði og minnkuðum fjárheimildum verðum við að horfa til þess hvað það er sem lögregla á í rauninni að gera. Á hún virkilega að sinna þessum 527 verkefnum sem henni er falið samkvæmt lögum og reglugerðum? Ég segi: Nei, það getur hreinlega ekki verið. Við verðum að flokka hvað telst til þess sem lögregla á að gera, hvað telst til grunnþjónustu hennar. Hvað er nauðsynlegt fyrir samfélagið? Án hvers getum við ekki verið þegar kemur að lögreglu?

Þetta verkefni var mjög brýnt, þ.e. að skilgreina grunnþjónustu lögreglunnar. Ég fól embætti ríkislögreglustjóra að vinna þetta áfram vegna þess að skýrslan er í rauninni fyrsti áfangi á dálítið langri vegferð í að skilgreina hvað lögregla á að gera. Vissulega getum við heldur ekki setið uppi með það að lögregla þurfi að svara fyrir það að hún sinni ekki ákveðnum verkefnum sem búið er að taka af henni þótt fólki eða samfélaginu eða ríkisvaldinu finnist kannski að hún eigi að sinna þeim þrátt fyrir allt. Þetta er vandasöm vinna og það sem ég hef beðið um er að það verði útfært í frumvarpstexta hvaða verkefni er unnt að færa frá lögreglu og þá til hverra svo vel eigi að vera. En það er nefnilega ekki einföld vegferð og það kemur margt upp úr dúrnum á leiðinni. Er virkilega hægt að taka svo mikið af lögreglu? Jú, það er eitthvað, en er það svo mikið sem menn halda? Ég hreinlega veit það ekki.

Hvað varðar áform um skipulagsbreytingar er það í rauninni sama mál, þ.e. við stöndum frammi fyrir skertum fjárheimildum og við komumst ekki í gegnum það án þess að fara í gegnum verkefni lögreglu og við komumst ekki í gegnum það án þess að endurskoða skipulag lögreglu. Eru þar einhverjir hagræðingarmöguleikar sem við getum nýtt okkur? Þegar við tölum um endurskipulagningu lögreglu og stækkun lögregluumdæma eru fyrst og fremst fagleg rök fyrir því að gera lögregluembætti þannig úr garði að þau séu stór og öflug og í rauninni til mótvægis við það sem gerist og gengur á höfuðborgarsvæðinu. Það er ekkert vit í því að hafa misöflug lögregluembætti og -umdæmi yfir landið. Við hljótum að þurfa að stefna að því að hafa svipað vægi á þeim öllum. Þótt það verði kannski ekki það sama verði jafnræði með þeim.

Hv. þingmaður nefndi að fallið hefði verið frá áformum. Það er aldeilis ekki svo að fallið hafi verið frá neinum áformum. Hins vegar lagði ég áherslu á að þetta yrði unnið í samvinnu við lögreglu, í samvinnu við þá sem best vit hafa á hlutunum. Við höfum farið í dálítið langa vinnu og það sem kemur líka upp úr dúrnum er að ekki verður farið í þetta án þess að skoða sýslumannsembættin líka.

Til að gera langa sögu stutta svo ég nái að koma einhverju á framfæri sé ég fyrir mér að ráðist verði í stækkun lögregluumdæma og aðskilnað sýslumannsembætta og yfirstjórn lögreglu. Það er í rauninni forgangsatriði. Við byrjum á því og svo kemur hitt á eftir.