138. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2010.

þjónustu- og öryggisstig löggæslu á Íslandi.

[14:18]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur, kærlega fyrir að vekja athygli á þessu og ræða hér þjónustu- og öryggisstig löggæslu á Íslandi. Að baki þjónustu- og öryggisstigi löggæslu er fólk, lögregla samanstendur af fólki sem sinnir þeirri lögbundnu löggæslu. Án lögreglumanna er ekki lögregla. Það eru einstaklingar sem starfa við þessa löggæslu sem leiðir hugann að því að ef löggæsla sem lögreglumenn sinna brestur hrynur það umhverfi sem við köllum í dag réttarríki sem byggist á settum lögum og reglum sem lögreglunni er falið að framfylgja.

Nú hafa lögreglumenn verið kjarasamningslausir í tæpa 300 daga. Lögreglumenn hafa ekki verkfallsrétt og kemur fram í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna að fyrir þá sem hafa ekki verkfallsrétt skuli nýr kjarasamningur taka gildi fyrsta virka dag eftir að fyrri kjarasamningur rennur úr gildi.

Frú forseti. Við erum að tala um tæpa 300 daga sem ríkisvaldið hefur hundsað þetta ákvæði.

Höfum það líka hugfast að lögreglumenn mega ekki vinna aukastörf sér til tekjuauka og það gerir málið enn snúnara. Þolinmæði lögreglunnar er löngu þrotin vegna þessa sinnuleysis og hafa margar ályktanir fallið í kjölfarið. Ríkisstjórnin hikar samt ekki við að reyna að semja og semja við Breta og Hollendinga um Icesave en þegar kemur að lögbundnum kjarasamningum eins og þessum sem liggja fyrir gagnvart lögreglumönnum dregur ríkisvaldið lappirnar.

Frú forseti. Öryggisstig þjóðarinnar er nú varið með ómanneskjulegu álagi lögreglumanna sem eru kjarasamningslausir. (Forseti hringir.) Þetta eru óviðunandi aðstæður sem lögreglumenn vinna við. Ég hvet ríkisstjórnina til að taka sig saman í andlitinu og gera eitthvað í þessum málum.