138. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2010.

þjónustu- og öryggisstig löggæslu á Íslandi.

[14:23]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir að standa fyrir þessari þörfu umræðu. Hér talaði hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir um niðurskurðinn, taldi að hann hefði verið of brattur og að við hefðum átt að fara bara í 7%. Ég get ekki tekið undir það. Á svona tímum þegar álag á lögregluna eykst gífurlega á ekki að skera niður við löggæsluna.

Mig langar líka að nota tækifærið og beina athyglinni að starfskjörum og aðstæðum lögreglumanna sem hafa verið samningslausir síðan í ágúst þegar þeir felldu kjarasamning með yfir 90% greiddra atkvæða. Ætli það megi ekki segja að lögreglumenn hafi álíka álit á þeim kjörum sem þeim eru boðin og þjóðin hafði á Icesave-samningnum sem hún hafnaði með svipuðum niðurstöðum fyrir rúmri viku?

Lögreglumenn hafa ekki verkfallsrétt eins og hér hefur komið fram. Því eru tæki þeirra takmörkuð til að þrýsta á betri kjör. Grunnlaun lögreglumanna eru rétt yfir strípuðum atvinnuleysisbótum. Atvinnuleysisbætur eru hugsaðar sem skammtímaúrræði en störf lögreglumanna eru ævistörf. Lögreglumenn mega ekki drýgja tekjur sínar með aukastörfum í frítíma. Nú þegar lán heimilanna hafa stökkbreyst er erfiðara fyrir alla að láta enda ná saman. Verði lögreglumaður gjaldþrota missir hann vinnuna.

Ég beini því til hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra að beita sér fyrir mannsæmandi kjörum lögreglumanna og að hæfni og áhætta verði metin til launa þeirra. Bág kjör lögreglumanna og takmarkanir á frelsi þeirra til að ráðstafa frítíma sínum eftir eigin höfði jaðra nefnilega við að vera mannréttindabrot. Okkur ber að meta að verðleikum þau góðu störf sem lögreglan innir af hendi.