138. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2010.

þjónustu- og öryggisstig löggæslu á Íslandi.

[14:25]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Hér er mjög mikilvæg umræða á ferðinni. Ég tek eftir því að menn eru sammála um að það þurfi að stíga varlega til jarðar þegar skorið er niður hjá lögreglunni. Menn eru einnig sammála um það, eins og þeir voru raunar líka í haust, að of langt hafi verið gengið í fjárlagagerðinni og ég veit að hæstv. dómsmálaráðherra er líka sammála um mikilvægi þess að löggæslan sé meðhöndluð eins og grunnþjónusta með sama hætti og velferðarkerfi og menntakerfi.

Nú erum við sem sagt sammála um að það sé nauðsynlegt að ganga ekki svona hart fram í niðurskurði. Þá hljótum við líka að taka næsta skref sem er það að tryggja í komandi fjárlagagerð að öðruvísi verði á málum haldið en gert var í haust. Við þingmenn hljótum að leggjast á árarnar með það að gæta að löggæslunni í landinu í breiðum skilningi. Þá hljótum við líka að meta að verðleikum störf lögreglumanna sem mörg hver eru ósýnileg. Þegar rætt er um hornstein samfélagsins í löggæslu, í því að vernda réttarríkið og réttarstöðu borgaranna, skiptir auðvitað verulega miklu máli að þeir sem starfa við þessa grein séu metnir að þeim verðleikum sem þeim ber.

Við vitum að hér er mikill niðurskurður á ferðinni og það verður auðvitað að taka mjög hressilega á víða til að ná endum saman í ríkisrekstrinum. Nú hvet ég hæstv. dómsmálaráðherra eindregið til þess að hafa samráð við löggæsluna, bæði lögreglumenn, félag lögreglumanna og embættismenn, til að þær breytingar sem þarf að gera og þegar verið er að skoða hvaða hlutir eru í grunnþjónustu löggæslu, hvað getur verið unnið annars staðar, sé það gert með þeim hætti að það skapi ekki óþarfaóróa í samfélaginu og úlfúð. Það er það sem við þurfum síst á að halda núna.

Hæstv. dómsmálaráðherra fór vel yfir það í ræðu sinni hvernig þessum málum er háttað og hvaða þættir gætu hugsanlega verið teknir fyrir annars staðar. Ég held að einmitt þegar litið er til grunnþjónustunnar þurfum við borgararnir að átta okkur á því að það er svo ótal margt sem lögreglan gerir sem við tökum bara alls ekkert eftir, sem er ósýnilegt, eitthvað sem við gerum ráð fyrir. (Forseti hringir.) Það er ekki síst að því sem við þurfum að gæta þegar við horfum til löggæslunnar í landinu.