138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

394. mál
[14:50]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 75/2007, um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

Þetta frumvarp er í sjálfu sér einfalt. Tækniþróunarsjóður hefur nú starfað í sex ár og á meðan hefur skipan Stjórnarráðsins breyst með þeim hætti að landbúnaðarráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti hafa verið sameinuð í eitt ráðuneyti en áður höfðu þessi ráðuneyti hvort sinn fulltrúann í stjórn sjóðsins. Því gerir frumvarpið ráð fyrir að stjórnarmönnum verði fækkað úr sjö í sex til samræmis við þá breytingu í stjórnkerfinu. Í öðru lagi er samhliða þeirri breytingu lagt til að þessir fulltrúar, sem skipaðir eru af iðnaðarráðherra en tilnefndir af öðrum aðilum, sitji í tvö ár í stjórn Tækniþróunarsjóðs í stað þriggja áður og að þeim sé eingöngu heimilt að sitja tvö tímabil í senn. Ástæða þessa er einföld, það skiptir gríðarlega miklu að slíkur sjóður sé lifandi og þá skiptir máli að talsverð hreyfing sé á stjórnarmönnum þannig að saman fari reynsla, sem byggist svo sannarlega upp á þeim tíma sem gert er ráð fyrir að menn sitji, og svo fersk sýn á það sem þar er að gerast.

Ég tel að með þessari breytingu náum við að sameina ýmis sjónarmið sem fram hafa komið um það hvernig menn sjá fyrir sér starfsemi sjóðsins til lengri tíma.