138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

sala fasteigna, fyrirtækja og skipa.

448. mál
[14:52]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, sem er 448. mál þingsins á þingskjali 769.

Í gildandi lögum um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa er kveðið á um endurskoðun laganna 1. janúar 2008, þ.e. þegar reynsla væri komin á það fyrirkomulag sem fyrir er mælt um í lögunum. Hæstv. þáverandi dómsmálaráðherra skipaði í maí 2007 vinnuhóp sem gera skyldi tillögur að breytingu á lögunum. Vinnuhópurinn skilaði tillögum sínum í formi heildarfrumvarps til nýrra laga í lok árs 2007.

Þann 1. janúar 2008 fluttist málaflokkurinn, þ.e. málefni fasteignasala, til viðskiptaráðuneytisins og í kjölfarið var skipaður nýr starfshópur til að leggja fram lokadrög að frumvarpi til laga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa. Hópurinn lauk störfum um miðjan mars 2008 og skilaði frumvarpi til nýrra heildarlaga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, nokkuð áþekkt því sem fyrri starfshópur hafði skilað. Frumvarpið var lagt fyrir Alþingi í kjölfarið en fékk ekki afgreiðslu. Nú hafa verið gerðar lítillegar breytingar á fyrra frumvarpi sem m.a. má rekja til ákvæða þjónustutilskipunarinnar svokölluðu, en þegar hefur verið mælt fyrir frumvarpi til innleiðingar á henni.

Markmiðið með þessu frumvarpi er að viðskipti með fasteignir, fyrirtæki og skip fari fram með tryggum og öruggum hætti fyrir þá sem koma að slíkum viðskiptum, jafnt kaupendur og seljendur og neytendur alla í heild. Fasteignaviðskipti eru oftar en ekki viðskipti með aleigu fólks eða a.m.k. verðmætustu eign þess og því er nauðsynlegt að löggjafinn marki skýra en sanngjarna löggjöf í þessum efnum. Þá er markmið þessa frumvarps jafnframt að tryggja þeim sem telja á sér brotið í fasteignaviðskiptum hraða og vandaða málsmeðferð við úrlausn sinna mála og verður nánar vikið að því hér á eftir.

En víkjum þá að helstu nýmælum frumvarpsins. Í frumvarpinu er það nýmæli að lagt er til að lögfest verði markmiðsákvæði í 1. gr. frumvarpsins til að undirstrika markmið laganna en með því er átt við að þeir sem hafa fengið einkarétt hjá hinu opinbera til að eiga milligöngu um viðskipti milli kaupenda og seljenda gæti hagsmuna beggja aðila. Þannig er lagt til að fest verði í lög að staða kaupenda og seljenda skuli lögð að jöfnu og hagsmuna þeirra beggja sé gætt.

Það nýmæli er einnig að finna í 6. gr. frumvarpsins að skýrt er kveðið á um að fasteignasali megi ekki fela öðrum að vinna þau störf sem löggilding nær til í meira mæli en lögin og reglugerðir settar samkvæmt þeim segja til um. Tilefni þessa er að svo virðist sem nokkuð óljóst hafi verið hversu mikið af skyldum fasteignasalans hann geti framselt öðrum sem starfa í hans þágu og hvaða verk óheimilt sé að framselja. Hér er þó ekki verið að koma í veg fyrir að fasteignasali geti látið aðra vinna einföld verk. Með þessu er einnig leitast við að setja nokkur bönd á verktöku fasteignasala sem talsvert hefur verið amast við og hefur verið nokkuð umdeild. Jafnframt er tekið af skarið um að fasteignasali beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem valdið er af þeim sem starfa í hans þágu.

Í frumvarpinu er í d-lið 3. gr. tillaga um breytingar á fyrirkomulagi á menntun fasteignasala. Eins og fram kemur í skýringum með greininni er gert ráð fyrir því að reglur um menntun fasteignasala verði felldar að löggjöf um menntun á háskólastigi. Háskólar geta, ef frumvarpið nær fram að ganga, skipulagt nám fyrir fasteignasala en það skal þó vera 90 staðlaðar námseiningar og er efnahags- og viðskiptaráðherra heimilt að setja reglugerð til að mæla fyrir um framkvæmd og tilhögun þessa náms. Þannig samsvara 90 staðlaðar námseiningar, eða svokallaðar ECTS-einingar, eins og hálfs árs háskólanámi eða 45 einingum samkvæmt eldra einingakerfi sem miðað var við hér á landi í háskólanámi lengst af. Því er ekki lagt til að lengd eða umfangi námsins verði breytt heldur að það verði flutt til háskólanna. Samhliða verði prófnefnd fasteignasala lögð niður sem einfaldar stjórnsýslu og lækkar rekstrarkostnað.

Með frumvarpinu eru að auki lagðar til tvær meginbreytingar á reglum um fasteignasala. Annars vegar er lagt til að skylduaðild að Félagi fasteignasala verði felld niður. Umboðsmaður Alþingis tók fyrir nokkru að eigin frumkvæði til athugunar skylduaðild að félaginu og hvort hún stæðist ákvæði stjórnarskrár Íslands um félagafrelsi, samanber niðurstöðu umboðsmanns Alþingis nr. 4225/2004. Umboðsmaður taldi að vafi léki á því hvort þau verkefni Félags fasteignasala sem kveðið er á um í núgildandi lögum uppfylltu þau skilyrði sem 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar setti, þ.e. að skylduaðild væri nauðsynleg til að Félag fasteignasala gæti sinnt lögmætu hlutverki vegna almannahagsmuna. Umboðsmaður Alþingis vakti athygli dóms- og kirkjumálaráðherra á álitinu. Á öðrum Norðurlöndum er skylduaðild að félagsskap fasteignasala ekki til staðar. Þrátt fyrir það hefur yfirgnæfandi meiri hluti fasteignasala í Danmörku, Svíþjóð og Noregi séð hag sínum best borgið með því að vera félagsmenn í slíkum félögum. Ekkert bendir til þess að málum yrði öðruvísi farið hér á landi. Þannig mundu flestir fasteignasalar vafalaust sjá hag sínum best borgið með frjálsri félagsaðild enda ljóst að slíkur félagsskapur hefur margvíslega kosti. Ein meginástæða þess að lögð var til skylduaðild í frumvarpi til gildandi laga var að gefa félaginu tækifæri til þess að eflast að burðum og skapa sér þá stöðu að verða leiðandi hér á landi, eins og kemur fram í áliti allsherjarnefndar sem fylgdi því frumvarpi. Taldi nefndin að félagið kynni að styrkjast svo verulega í starfsemi sinni í framhaldi af lögfestingu að ekki yrði nauðsynlegt að kveða á um skylduaðild til frambúðar og lagt til að það fyrirkomulag yrði tekið til sérstakrar skoðunar að nokkrum tíma liðnum. Þá hafa vinnuhópar þeir er unnu að endurskoðun gildandi laga vísað til fyrrgreinds álits allsherjarnefndar og komist að þeirri niðurstöðu að ákvæðið hafi þegar þjónað tilgangi sínum.

Hins vegar er í 7. gr. frumvarpsins lagt til að fellt verði niður það skilyrði gildandi laga að fasteignasala skuli vera í eigu löggilts fasteignasala og að sá starfi á viðkomandi fasteignasölu. Telja má að frjáls eignaraðild geti leitt til aukinnar samkeppni og þess að öflugri rekstrareiningar myndist. Með því að lögð eru til í frumvarpinu ákveðin höft á verktöku innan fasteignasalaumhverfisins og að ekki er fallið frá skyldu til ábyrgðartryggingar fasteignasala og þeirra sem starfa fyrir hann ætti öflug neytendavernd og öryggi í viðskiptum ekki að bera hnekki með þessum breytingum.

Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir því að eftirlitsgjald fasteignasala lækki úr 100.000 kr. í 80.000 kr. á ári en talsverð fjárhæð hefur safnast í sjóð eftirlitsnefndar fasteignasala. Er því einnig lagt til eins og fram kemur í skýringum með 19. gr. frumvarpsins að fasteignasalar greiði ekki eftirlitsgjald vegna ársins 2010 heldur verði gengið á fyrirliggjandi innstæðu í sjóði sem hefur safnast þar síðustu ár þar sem innheimt eftirlitsgjald var umfram kostnað nefndarinnar. Þótti þetta fyrirkomulag sanngjarnasta leiðin til að koma til móts við starfandi fasteignasala sem greitt hafa eftirlitsgjaldið. Þess má geta að í mars síðastliðnum voru samþykkt lög nr. 18/2009, þ.e. í mars á síðasta ári, er afléttu skyldu til greiðslu eftirlitsgjalds vegna ársins 2009.

Að lokum er lagt til í IV. kafla frumvarpsins að lögfest verði sérstök kærunefnd um málefni fasteignasala og að hún taki til starfa. Eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu er gert ráð fyrir því að kaupendur og seljendur fasteigna eða viðskiptamenn fasteignasala geti borið undir kærunefndina ágreining um þóknun og skaðabótaskyldu og aflað álits hennar um ágreiningsefnið. Hér er um að ræða mikilvæga réttarbót í þágu neytenda þar sem kostnaður við málsmeðferð verður stillt í hóf og málsmeðferð tekur skamman tíma.

Hæstv. forseti. Ég tel að hér sé á ferðinni þýðingarmikið frumvarp sem mun stuðla að öruggari fasteignaviðskiptum og tryggja neytendur betur í slíkum viðskiptum. Þrátt fyrir að atvinnugreinin upplifi hremmingar þar sem fasteignasala hefur dregist gríðarlega mikið saman dregur það ekki úr nauðsyn þess að skýrar reglur skapi frjálst en öruggt viðskiptaumhverfi sem neytendur og samfélagið geti treyst.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. viðskiptanefndar.