138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

Íslandsstofa.

158. mál
[15:34]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég skrifa undir nefndarálit það sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson gerði grein fyrir þannig að ég er samþykk því sem þar stendur. Það eru fjögur atriði sem mig langar til við þessa umræðu að leggja áherslu á og ég tel að skipti máli með hina nýju Íslandsstofu.

Í fyrsta lagi það að þetta er ný stofnun. Hún byggir vissulega á grunni Útflutningsráðs en það skiptir miklu máli að hér er um nýja stofnun að ræða og hún hefur miklu breiðari og víðtækari verkefni en Útflutningsráð hafði áður. Við uppbyggingu þessa nýja fyrirtækis tel ég rétt að litið verði til þess að þetta er ný stofnun en ekki framlenging á Útflutningsráði.

Í öðru lagi langar mig að minnast á breytingartillöguna sem gerð er um að fjölga stjórnarmönnum úr níu í ellefu. Vissulega má færa rök að því að stjórnir eru oft því skilvirkari þeim mun fámennari sem þær eru. Kannski er níu manna stjórn stór og ellefu manna stjórn næstum því ráðstefna en færð voru rök fyrir því í nefndinni, sem ég get vel fallist á, að eðli þessarar stjórnar væri þannig að það skipti meira máli að sem flest sjónarmið kæmust að borðinu heldur en að hún þyrfti að vera mjög svo skilvirk, enda er gert ráð fyrir að skipuð verði fagráð og minni hópar sem hafa þá eftirlit og væntanlega verkstjórn með einstökum verkefnum.

Í þriðja lagi langar mig að minnast á breytingartillögu um það að Ríkisendurskoðun komi að skoðun reikninga fyrirtækisins. Það þykir mér eðlilegt þar eð gífurlegir fjármunir fara af opinberu skattfé í þessa stofnun. Til Útflutningsráðs hafa runnið um 400 milljónir af mörkuðum tekjustofnum og nú eru einnig talað um bein framlög. Ég mæli því mjög með því að Ríkisendurskoðun, fyrir hönd fólksins í landinu sem greiðir skattana og greiðir því þessa fjármuni, fylgist með reikningshaldi þessa fyrirtækis.

Að lokum langar mig að lýsa vonbrigðum mínum yfir því að iðnaðarnefnd leggur til að það verði skoðað nánar og athugað hvernig Íslandsstofu farnist áður en tillaga verður gerð um breytingu á lögum um ferðamál. Mér finnst þetta vera að senda þetta nýja fyrirtæki svolítið vanbúið út í lífið. Ég hefði kosið að lögð hefði verið fram breytingartillaga við lög um ferðamál, þar sem allur vafi væri tekinn af því að markaðsstarfsemi erlendis og það sem því fylgir fyrir íslenska ferðaþjónustu eigi að vera, það sé ætlunin samkvæmt þessum lögum, á hendi Íslandsstofu.