138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

21. mál
[16:05]
Horfa

Frsm. allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá allsherjarnefnd um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald sem lýtur að takmörkunum á rekstri svokallaðra nektarstaða. Þetta mál hefur áður verið flutt á Alþingi, að ég hygg þrisvar eða fjórum sinnum. Það fór nú nokkuð langt á síðasta þingi og munaði litlu að það yrði að lögum en það gekk þó ekki eftir þannig að við höfum verið með það í umfjöllun í allsherjarnefnd að undanförnu og fengið á fund okkar lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, Stefán Eiríksson, og svo Kristbjörgu Stephensen borgarlögmann.

Eins og margir vita var að frumkvæði Reykjavíkurborgar farið að skoða fyrir allmörgum árum hvort hægt væri að setja einhvers konar hindranir við starfsemi nektarstaða. Ég þekki það býsna vel vegna þess að ég sat í borgarstjórn Reykjavíkur. Niðurstaðan varð sú að setja inn í lögreglusamþykkt Reykjavíkurborgar bann við starfsemi nektarstaða. Á þeim tíma var nokkuð umdeilt hvort það stæðist fyrir lögum og réðu margir lögfræðingar borgaryfirvöldum eindregið frá því að fara þessa leið vegna þess að þarna væri verið að skerða atvinnufrelsi. Í raun og veru var því fundið allt til foráttu að Reykjavíkurborg stigi þetta skref. Það var hins vegar mjög ríkur pólitískur vilji á þeim tíma af hálfu þess meiri hluta sem þá sat til að stemma stigu við þessari starfsemi vegna þess að okkur þótti hún óæskileg og að hún væri óheppileg fyrir ímynd Reykjavíkurborgar. Þessar skorður voru því settar í lögreglusamþykkt Reykjavíkurborgar. Það mál endaði fyrir dómstólum, fyrst fyrir héraðsdómi og síðan fyrir Hæstarétti en skemmst er frá því að segja að borgin vann það mál þannig að það var mikill sigur fyrir þá sem hafa viljað stemma stigu við starfsemi þessara staða.

Í frumvarpinu er lagt til að undanþáguheimild til nektarsýninga í atvinnuskyni á veitingastöðum falli brott. Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Þar kemur fram að rekstraraðilum megi vera það ljóst að þessi hluti rekstrarins“ — þ.e. undanþáguheimild til nektarsýninganna — „byggist á undanþágu frá meginreglu laganna um að veitingastöðum sé hvorki heimilt að bjóða upp á nektarsýningar né með öðrum hætti gera út á nekt starfsmanna eða annarra sem eru á staðnum og að undanþáguheimildina beri að skýra þröngt. Undanþáguheimildin er háð því að umsagnaraðilar um rekstrarleyfi veiti jákvæðar umsagnir. Geti rekstraraðilarnir því ekki byggt lögmætar væntingar til annars en að þessi tiltekna starfsemi sé háð breytingum á löggjöf.“

Það kom fram fyrir nefndinni, af hálfu lögreglustjóra og annarra og líka í umsögnum sem bárust frá Kvenréttindafélagi Íslands, Landssambandi lögreglumanna og Lýðheilsustöð sem studdu það að þessi leið væri farin, að starfsemin byggðist nær eingöngu á mjög ungum stúlkum erlendis að sem koma hingað á hverju ári. Þær geta verið nokkur hundruð á ári. Lögregluyfirvöldum hefur verið mikið í mun á undanförnum árum að reyna að tryggja öryggi þeirra en þar sem þessar stelpur stoppa yfirleitt stutt á landinu hefur lögreglunni reynst mjög erfitt að kanna stöðu þeirra, aðstæður og ástæður fyrir því að þær stunda þessa iðju eða, og það er kannski kjarni málsins, frú forseti, hvort þær séu þvingaðar til þess með einum eða öðrum hætti. Þá hefur líka reynst erfitt að sinna eftirliti með stöðunum erlendis.

Þegar málið var til umfjöllunar í allsherjarnefnd á fyrri þingum kom fram í þeim umsögnum sem bárust að rannsóknir yfirvalda víða í Evrópu hafa sýnt að þessar stelpur eru yfirleitt mjög ungar en þó eru þær yfir lögaldri. Þær eru mjög oft þolendur misneytingar af ýmsu tagi, svo sem vegna fátæktar eða áfengis- eða eiturlyfjafíknar, og í mörgum tilvikum eru þær fórnarlömb mansals eða annarra glæpa. Allsherjarnefnd taldi þá og telur reyndar enn að í ljósi upplýsinga frá lögreglu séu verulegar líkur á því að á þessum stöðum starfi í einhverjum mæli einstaklingar sem ekki njóta fullra persónuréttinda og séu mögulega — ég segi mögulega — fórnarlömb mansals eða annars konar misneytingar. Það er rétt að geta þess að nefndin hefur bent á það að alþjóðlegir glæpahringir eru auðvitað mjög fyrirferðarmiklir þegar kemur að framboði á konum til starfsemi af þessu tagi, þ.e. starfsemi þessara staða tengist oft með óbeinum hætti og stundum með beinum hætti starfsemi alþjóðlegra glæpahringa. Þetta er ekki eitthvað sem ég er að segja hér, frú forseti, heldur er þetta nokkuð sem er byggt á alþjóðlegum rannsóknum og eins á upplýsingum frá lögreglu.

Eins og segir í nefndarálitinu taldi allsherjarnefnd við meðferð málsins á 136. löggjafarþingi, þ.e. fyrra þingi, „engin málefnaleg sjónarmið fyrir því að viðhalda gildandi undanþáguheimild þegar metnir voru þeir hagsmunir sem í húfi eru og sjónarmið um vernd mannréttinda og persónuhelgi þeirra kvenna sem á stöðunum starfa“. Nefndin ítrekar að þessu sinni þau sjónarmið og leggur mjög ríka áherslu á þetta hagsmunamat.

Við meðferð málsins á fyrri stigum kom fram gagnrýni á það að í breytingunni fælist fyrirvaralaust afnám heimilda til rekstrar af þessum toga. Þá var talið rétt að draga úr hugsanlegu óhagræði rekstraraðila með því að gefa tiltekinn aðlögunartíma. Allsherjarnefnd tekur undir þetta sjónarmið að þessu sinni vegna þess að auðvitað starfa á þessum stöðum aðrir aðilar en bara þær stelpur sem eru að dansa. Þarna starfa oft og tíðum dyraverðir, barþjónar, ræstingafólk o.s.frv. þannig að hér er gefinn aðlögunartími og við gerum ráð fyrir því að gildistaka frumvarpsins verði miðuð við 1. júlí 2010.

Ég tel, frú forseti, mjög mikilvægt að þetta mál verði afgreitt frá Alþingi að þessu sinni þannig að ekki þurfi að leggja það fram enn eina ferðina á sumar- eða haustþingi. Nógu margar atrennur er þingið búið að gera að því að afgreiða þetta mál. Mér finnst líka ýmislegt benda til þess að undanförnu að tíminn sé kominn. Það má nefna nýlegan dóm sem féll í svokölluðu mansalsmáli, það má nefna það sem lögregla hefur talað um að alþjóðlegir glæpahringir séu hugsanlega að festa rætur á Íslandi. Erlendur sérfræðingur sem var á Íslandi á dögunum taldi sig sjá öll merki þess að hér ætti sér stað sama þróun og annars staðar á Norðurlöndunum. Ríkislögreglustjóri hefur kallað eftir því við Alþingi að sett verði lög sem banni starfsemi alþjóðlegra glæpahringa. Það mál hefur reyndar ekki verið rætt sérstaklega í þinginu, heldur ekki í allsherjarnefnd, en mér finnst full ástæða til þess og held að það sé engin tilviljun að þeir sem starfa í þessum geira, hvort sem það er lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, almenna lögreglan eða ríkislögreglustjóri, aðilar sem best þekkja málaflokkinn, vilja ganga eins langt og Alþingi gerir núna. Þeir hafa m.a. velt upp þeirri hugmynd að banna þessa starfsemi með öllu.

Það er ýmislegt í umhverfi okkar og samfélagi þessa dagana sem bendir til þess að þetta sé að þróast til verri vegar. Ég tel að við eigum að bregðast við því. Við aðstæður eins og eru uppi núna í íslensku samfélagi þar sem allt riðlast í raun og veru, ekki bara efnahagslífið heldur hrynur allt samfélagið, öll gildi hrynja, kemst los á samfélagið og það verður mjög auðvelt fyrir alþjóðlega glæpahringi o.s.frv. að festa rætur. Það er þekkt annars staðar. Frumvarpið er liður í að stemma stigu við þessu. Fyrir utan það held ég að allir geti verið sammála um að Íslandi sem er að reyna að markaðssetja sig sem ferðamannaland, sem hreint land, markaðssetja náttúrufegurð, henti ekki að vera með starfsemi af þessum toga. Það rímar ekki við þá ímynd sem við viljum gefa af okkur. Ísland hefur alltaf verið hvað fremst í jafnréttismálum meðal landa heimsins. Við höfum verið til fyrirmyndar að mörgu leyti. Það eru fleiri konur á þingi hér en í mörgum öðrum löndum. Við höfum nýlega sett lög sem skylda fyrirtæki yfir ákveðinni stærð til að setja tiltekið hlutfall kvenna í stjórn fyrirtækja eftir 2013 ef atvinnulífið sjálft verður ekki búið að grípa til viðeigandi ráðstafana fyrir þann tíma þannig að við Íslendingar höfum stært okkur af því að vera framarlega í jafnréttismálum. Við höfum stært okkur af því að hafa átt fyrsta lýðræðislega kjörna kvenforsetann. Við höfum stært okkur af því hversu margar konur sitja á Alþingi. Við höfum stært okkur af því hversu margar konur eru þátttakendur í samfélagsumræðunni og við höfum stært okkur af því hversu margar konur taka þátt í sveitarstjórnarmálum svo eitthvað sé nefnt.

Það að banna starfsemi nektarstaða með þeim hætti sem Alþingi er að gera núna er bara liður í ímynd og ásýnd Íslands. Við viljum vera jafnréttissamfélag sem gerir konum jafnhátt undir höfði og körlum. Starfsemi nektarstaða, hvort sem er á Íslandi eða úti í heimi, er ekkert annað en argasta kvenfyrirlitning og við því vil ég sporna, bæði í þessu máli og öðrum.

Við afgreiðslu málsins í allsherjarnefnd voru Erla Ósk Ásgeirsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Ögmundur Jónasson og Þráinn Bertelsson fjarverandi. Undir nefndarálitið skrifa auk þeirrar sem hér stendur Árni Þór Sigurðsson, Valgerður Bjarnadóttir, Ólöf Nordal og Róbert Marshall.

Frú forseti. Eins og ég sagði í upphafi vonast ég til þess að hér skapist þverpólitísk sátt um það að klára málið á þessu þingi. Ég vil vekja athygli á því að 1. flutningsmaður frumvarpsins er hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sem hefur verið ötull baráttumaður og ötul talskona þessa máls á undanförnum þingum. Auk hennar eru flutningsmenn á þessu frumvarpi þingmenn úr öllum flokkum þannig að það er þverpólitísk samstaða á þingi um að klára málið. Ég held að það sé tími til kominn að við gerum það að lögum.