138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

21. mál
[16:38]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U):

Frú forseti. Við lifum því miður ekki í fullkomnum heimi. Í fullkomnum heimi væri sennilega hægt að komast miklu nær fullkomnu frelsi en í þeim ófullkomna heimi sem við byggjum. Við lærum yfirleitt í skólum að þrælahald hafi verið afnumið, að mestu leyti gengið frá því í síðasta lagi um og upp úr miðri 19. öld, en engu að síður er athyglisverð staðreynd að núna, árið 2010, telja þeir sem hafa kynnt sér þetta mál að það séu fleiri þrælar í veröldinni í dag en nokkru sinni áður í allri sögu mannkynsins, svo langt aftur sem saga okkar nær.

Þetta er ekki fullkominn heimur. Fullkomið frelsi er eftirsóknarvert og við sækjumst, held ég, öll eftir því. Helsti þrándur í götu mannsins á vegferð hans í átt að fullkomnu frelsi er ófullkomleiki mannsins sjálfs. Í okkar röðum eru og verða um fyrirsjáanlega framtíð alltaf einstaklingar sem misnota það sem öðrum er heilagt. Það eru menn sem misnota frelsi. Þess vegna þurfum við að setja ýmiss konar reglur um mannlega hegðun, og til þess að geta búið saman. Til að hópar af fólki, jafnvel heilar þjóðir, geti myndað með sér félög, þjóðfélög, þurfum við að setja þær reglur sem komast næst því að vera samnefnari fyrir það siðferði og athafnafrelsi sem hægt er að bjóða upp á án þess að frelsinu sjálfu sé stefnt í voða, þ.e. með því að glæpamenn hafi ótakmarkað frelsi til athafna. Verkefni okkar eins og allra manna væntanlega alls staðar er að hámarka athafnafrelsi venjulegra einstaklinga. Það þurfum við að gera með því að lágmarka athafnafrelsi þeirra sem misnota frelsið. Þeir menn eru yfirleitt kallaðir glæpamenn, a.m.k. eftir að þeir hafa náðst og verið leiddir fyrir dómstóla.

Einhverjir kunna að hrópa: Forræðishyggja, púritanismi, þegar settar eru á tölur um að banna þurfi nektardans. Ég heyri bergmála í huga mínum spurninguna: Er nekt hneykslanlegt, erum við á móti nekt? Fyrir mitt leyti er svarið: Aldeilis ekki, nekt er fögur, eftirsóknarverð og heillandi — eins og frelsið — en það er hægt að misnota hana. Og það er misnotkun á nekt sem þetta frumvarp stefnir að því að stemma stigu við að svo miklu leyti sem það er hægt.

Ég heyri líka spurninguna: Er ekki forræðishyggja að ætla að banna hugsanlegum nektardansara eða einhverjum sem hefur yndi af að dansa og sýna sig að nota sinn eigin líkama til þess öðrum til augnayndis? Hví skyldi þá þessi einstaklingur vera sveigður undir lög og honum bannað að sýna nekt sína? Þetta frumvarp fjallar ekki um að banna einstaklingum að sýna nekt sína. Þetta fjallar um að banna ákveðna tegund af nektarsýningum í viðskiptaskyni þar sem sá aðili sem hagnast á sýningunni leggur ekki nema lítið af mörkum. Hann er sá sem skipuleggur sýninguna, sá sem á nektarstaðinn og sér um innheimtu, sá aðili sem hagnast á nektinni, en því miður í fæstum tilvikum sá aðili sem mest leggur af mörkum, þ.e. sá sem á líkamann sem sýndur er nakinn.

Ég sagði áðan að fjöldi þræla á 21. öld væri meiri í veröldinni en nokkru sinni fyrr. Við skulum gá að því að atvinnuheitið og stöðuheitið þræll er horfið úr sögunni fyrir lifandis löngu. Til forna var réttarstaðan að vísu á ýmsum tímabilum ólík en þrælar höfðu alla tíð einhverja réttarstöðu. Núna heita þrælar ekki lengur þrælar, ekki einu sinni það, það er búið að taka frá þeim starfsheitið, það er búið að taka frá þeim þá vernd sem þetta starf eða þessi staða naut í gegnum aldirmar.

Ein tegund af þrælahaldi tíðkast enn þá í ákveðnum löndum þar sem efnahagsleg velsæld er skárri en í fátækustu ríkjum heims. Tökum dæmi einhver ríki á Arabíuskaga, þar er heimilt að flytja inn ódýrt vinnuafl. Það er til að mynda hægt að fá fólk frá Pakistan sem að forminu til ræður sig í vinnu. Það ræður sig í vinnu fyrir laun sem eru svo hlægileg að engum dytti í hug að bjóða þau fyrir nokkurt starf í vestrænu þjóðfélagi. Réttindi starfsmannsins eru engin, vinnutíminn er frá morgni til kvölds eða frá fótaferð til þess þegar gengið er til náða sjö daga í viku. Venjulega gengur ráðningarsamningurinn út á að veitt sé 50 daga sumarfrí, launalaust, í besta falli annað hvert ár og farseðill til heimalandsins.

Þetta er ekki kallað þrælahald, þetta er kallað innflutningur á starfsfólki frá öðrum þjóðum og er viðurkennt í ákveðnum hlutum heimsins. Þetta er auðvitað ekkert annað en þrælahald. Það þrælahald sem við hins vegar þekkjum best á hinum félagslega siðmenntuðu norðurslóðum, í Norður- og Norðvestur-Evrópu, er þrælahald sem tengist kynferðislegri misnotkun. Ekki er nóg með að Vesturlandabúar fari í frægar reisur til fátækari landa til að fá svalað einhverjum kynferðislegum fýsnum sem illmögulegt er að fá svalað í okkar siðmenntaða þjóðfélagi, heldur er einnig flutt inn frá fátækum löndum vinnuafl til að svala þessum kynferðislegu fýsnum. Því fer fjarri, vona ég — ég hef enga sannfæringu fyrir því en það er von mín að aðeins minni hluti þeirra kvenna sem hafa það sem kallað er framfæri sitt af nektardansi sé í raun og veru kynferðislegar ambáttir. Það er samt staðreynd að a.m.k. hluti af þeim sem stunda nektardans er fórnarlömb mansals, skipulagðrar glæpastarfsemi og mannvonsku af versta tagi.

Það er þessi misnotkun sem við viljum ekki hafa í samfélagi okkar, það er þessi misnotkun sem við viljum ekki horfa upp á, sem við viljum ekki hafa nálægt okkur, sem við viljum ganga á undan með góðu fordæmi til að reyna að losna við og útrýma. Ég gæti sjálfur hugsað mér ótal verkefni við lagasetningu miklu skemmtilegri og ánægjulegri en að setja lög sem draga úr frelsi einstaklingsins en því miður er fullkomlega ljóst að það þarf að takmarka frelsið. Það gerum við í samfélagi okkar í ótal greinum án þess að um forræðishyggju sé að ræða. Við verðum að hafa samkomulag um í hvernig samfélagi við viljum búa og sem betur fer virðist mér að um það frumvarp sem hér liggur frammi ríki loksins svokölluð þverpólitísk sátt, að það sé sem sagt vaknaður skilningur um að með því að takmarka frelsi og möguleika á misnotkun aukum við um leið frelsi þeirra sem búa í þjóðfélaginu til að vera til án þess að horfa upp á glæpastarfsemi af ömurlegustu sort í sínu nánasta umhverfi.

Ég er viss um að þegar þetta frumvarp verður orðið að lögum hefur enn einn steinn verið lagður í götu glæpastarfsemi á Íslandi. Þótt ekki nema einni manneskju sem annars hefði orðið kynferðisleg ambátt verði bjargað úr þeim þrældómi með þessum lögum hafa lögin fullkomlega þjónað tilgangi sínum. Ég er hins vegar hræddur um — hræddur um er kannski ekki rétta orðalagið, mér býður í grun að þeir eða þær sem þetta frumvarp bjargar frá algerri glötun séu ekki aðeins ein manneskja heldur muni fjöldinn hlaupa á ansi stórum tölum.

Það er með blæðandi hjarta sem ég tala fyrir því að takmarka frelsi og hefta aðgang að nekt sem er svo sjálfsögð að um það þarf eiginlega ekki að hafa nein orð. Í móti kemur að með þessu er dregið úr þeirri öruggu vissu að frelsi á þessu sviði er ávísun á þvingun, misnotkun og óhamingju. Þess vegna styð ég þetta frumvarp heils hugar.