138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

21. mál
[16:59]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér afar þarft mál sem er frumvarp til laga um breytingu á lögum um veitingastaði þar sem lagt er til að felld verði á brott undanþáguheimild til nektarsýninga í atvinnuskyni á veitingastöðum. Ég held að það sé afar þarft að löggjafinn sendi frá sér skýr skilaboð í þessu efni. Nektarsýningar í atvinnuskyni eru nokkuð sem íslenskt samfélag þarf ekki á að halda. Við getum rætt fram og til baka, eins og hv. þm. Þráinn Bertelsson gerði svo vel, um frelsi og ekki frelsi en meðan mannskepnan er eins ófullkomin og hún er verðum við að senda frá okkur skýr skilaboð sem löggjafi.

Í nefndarálitinu kemur fram að starfsemi sem býður upp á nektardans byggist nær eingöngu á ungum erlendum stúlkum sem hingað koma. Þær eru nokkur hundruð á ári. Ég verð að viðurkenna að þessar upplýsingar skera mig að innan sem móður, að hundruð ungra stúlkna komi hingað til lands til að stunda þessa iðju. Lögregluyfirvöld hafa gjarnan viljað tryggja öryggi þeirra en vegna þess að þær stoppa svo stutt í landinu hefur verið erfitt að kanna stöðu þeirra. Það eru samt ýmsar vísbendingar um að þær hafi jafnvel verið þvingaðar til að vera hér.

Þá er sláandi að sjá að margar þeirra eru hér að öllum líkindum vegna fátæktar, áfengis- og/eða eiturlyfjafíknar. Ég held að sjaldan hafi verið eins skýr þörf og nú fyrir að senda skýr skilaboð vegna þess að úti í samfélaginu heyrir maður af því að ungmenni eru jafnvel dálítið óviss með kynhegðun sína, hvað sé eðlilegt og hvað ekki. Ég held að við þurfum að senda skýr skilaboð. Ég held að það þurfi líka að senda skýr skilaboð um að það er alveg sama hvort við kennum stelpunum okkar að segja nei eða strákunum okkar að stúlkur og líkamar þeirra séu hvorki söluvara né útlosunarstöð fyrir nokkra líkamsvessa. Við þurfum að senda skýr skilaboð. Við eigum ekki á nokkurn hátt að bjóða hættunni heim með því að vera með undanþáguákvæði í lögum sem geta boðið upp á mansal og glæpastarfsemi af versta tagi.

Ég lýsi yfir sérstakri ánægju minni með þetta frumvarp og mun að sjálfsögðu styðja það.