138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:13]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Atla Gíslason um eitt sem hann kom inn á í ræðu sinni og er í nefndaráliti meiri hlutans. Ráðherra verður falið að setja reglugerð um nánari útfærslu á reiknigrunni, þ.e. þar sem væri þá hægt að taka tillit til afladagbóka, vegna þess að þó að hluti af þessum breytingum hjá meiri hluta sjávarútvegsnefndar leysi nokkur vandamál leysir hann því miður ekki öll. Vandinn á við um örfáar útgerðir, held ég að ég geti fullyrt. Það kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans að Guðmundur Smári Guðmundsson sem er forsvarsmaður Útgerðarfélagsins Guðmundar Runólfssonar í Grundarfirði hafi komið fyrir fund nefndarinnar og gert mönnum grein fyrir því hvaða áhrif þetta hefði á það fyrirtæki. Okkur hafa borist, í það minnsta þingmönnum Norðvesturkjördæmis, ályktanir frá bæjarstjórn Grundarfjarðar, hafnarstjórn Grundarfjarðarbæjar og fleirum þar sem menn lýsa mjög miklum áhyggjum út af þessum breytingum, að þær muni geta haft alvarleg og neikvæð áhrif á atvinnulíf í Grundarfirði.

Því vil ég spyrja hv. þm. Atla Gíslason hvort hann telji að þessi reglugerðarheimild ráðherra muni geta komið í veg fyrir dæmi eins og ég er hér að rekja og eins og við þekkjum úr umræðunni um þessi mál. Mun þetta reglugerðarákvæði dekka það að menn fái þá úthlutað miðað við þá veiðireynslu sem þeir hafa haft gagnvart afladagbókum en fái sannanlega ekki úthlutaðar aflaheimildir sem þeir hafa enga möguleika á að nýta?