138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það kom fram að örfáar útgerðir geta hugsanlega farið verr út úr þessari skiptingu djúpkarfa og gullkarfa en hugmyndir manna standa til. Ef til vill er það bara ein. Ég sem formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og fleiri nefndarmenn höfðum samúð með þessum sjónarmiðum. Ég hef hins vegar ekki trú á því að ályktanir Grundarfjarðarbæjar og annarra um þetta séu jafnstórvægilegar og -djúpstæðar og orð gefa tilefni til að halda. Í þessu tilviki er hugsanlega um að ræða 150 tonn til eða frá af 1.100 tonna aflamarki, ef ég man rétt. Þetta er líka byggt á þeirri forsendu sem ég veit ekki hvort verður rétt í framkvæmd, þ.e. að skiptireglan milli gullkarfa og djúpkarfa sé einn á móti tveimur. Það hefur ekki komið í ljós en útreikningur þessarar ágætu útgerðar Guðmundar Runólfssonar í Grundarfirði og talsmanns útgerðarinnar byggir á þeirri forsendu. Ég vona að svo verði ekki.

Ég segi að komi fyrirtækið eða önnur fyrirtæki með aflatölur sem eru verulega á skjön við þetta og skerði verulega hagsmuni viðkomandi verður að bregðast við því. Þá taldi ég og vonaði að slíkt reglugerðarákvæði mundi duga þar til. Ég ítreka að reiknigrundvöllurinn kemur fram núna sem allra fyrst, við lögðum áherslu á að hann kæmi fram sem fyrst, og þá gefast (Forseti hringir.) færi á andmælum að stjórnsýslurétti.