138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:56]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að minna hv. þingmann á að Reykjavík er sjávarbyggð og gamalgróinn útgerðarbær og ég ætlast til að í mínu kjördæmi sé útgerðarmannafélagi Reykjavíkur sýndur fullur sómi við umræðuna.

Auðvitað er það þannig að við hljótum að skoða allar auðlindir og heitavatnsauðlindina okkar í Reykjavík líka í þessu efni. Ég vil ekki gera neinn ágreining við þingmanninn um það.

Já, við ætluðum að slá skjaldborg um heimilin og vinnum sannarlega að því, en við ætluðum líka að leiðrétta margvísleg grundvallarmistök sem við töldum að hefðu orsakað efnahagshrunið á Íslandi og ein meginorsökin töldu báðir flokkarnir sem meiri hluta fengu í kosningunum að væri kvótakerfið og raskið sem leiddi af þeirri einkavæðingu og síðar af einkavæðingu bankanna. Það er þess vegna í fullu samræmi við þær meginstefnuáherslur stjórnarflokkanna að þetta litla mál um 600 tonn sé flutt. Nú get ég vel skilið að menn kalli á það að flokkarnir hafi samráð um þessar stóru ákvarðanir, um kerfið allt í heild sinni, en ég leyfi mér að líta svo á að stjórnarflokkarnir hafi lýðræðislegt umboð til þess að ákveða að úthluta 600 tonnum þannig að nokkur arður af veiðunum renni í ríkissjóð. Ég tel að það sé svona innan þeirra marka sem minni hlutinn verði að fallast á að felist í lýðræðislegu umboði meiri hlutans, ekki síst þegar það er virt að ítrekað hefur sýnt sig í skoðanakönnunum að mikill meiri hluti þjóðarinnar vill að auðlindin sé í almannaeigu og að af henni renni arður þangað.