138. löggjafarþing — 95. fundur,  22. mars 2010.

kjaramál flugvirkja.

483. mál
[13:23]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um sviptingu verkfallsréttar á starfsstétt á Íslandi örfáum klukkutímum eftir að verkfallið hófst. Eins og ég sagði áðan um atkvæðagreiðsluna hefur það ekki gerst áður í Íslandssögunni að starfsstéttir séu svo fljótt sviptar þessum grundvallarrétti sem þær hafa, að leggja niður störf ef ekki næst samkomulag um kjör. Í þau skipti sem það hefur verið gert hefur það ætíð verið gert þegar brýnir öryggishagsmunir þjóðarinnar eru í húfi. Um slíkt er ekki að ræða í þessu tilviki. Hér er annað flugfélag í fullum ferðum allan sólarhringinn milli Íslands og útlanda.

Verkföll eru aldrei góð og þau eru aldrei að meinalausu. Sjálfur starfaði ég sem sjómaður og virkur félagi hjá Sjómannafélagi Reykjavíkur í áratug og við þurftum nokkrum sinnum að grípa til verkfallsvopnsins til að reyna að leiðrétta kjör okkar. Ég þekki það sjálfur að menn gera það aldrei að gamni sínu og menn gera það aldrei nema að vel íhuguðu máli.

Almenningur á Íslandi er mjög aðklemmdur fjárhagslega í dag og það gildir um flugvirkja, ekki síður en aðra. Það lánleysi ríkisstjórnar Íslands að gera nokkuð sem skiptir máli í málefnum heimilanna til að leiðrétta t.d. skuldastöðu þeirra og gefa fólki einhverja von um bjartari framtíð leiðir einfaldlega starfsstéttir á endanum til þess að grípa til þess eina ráðs sem þær hafa og það er að reyna að leiðrétta kjörin í gegnum vinnuna sína. Það er ekki nema eðlilegt að fyrstu stéttirnar sem stíga það skref séu þær stéttir í þeim starfsgreinum sem mala gull í dag, útflutningsgreinarnar. Ég hef ekki neina sérstaka samúð með flugvirkjum eða öðrum sem ganga fram fyrir skjöldu og vilja fá launahækkanir umfram aðra. Ég þekki ekki kjör þeirra og ég hef ekki sérstaka samúð með þeim. Hins vegar er um að ræða grundvallarréttindi fólks sem má ekki ganga á með svo mikilli skammsýni sem verið er að gera hér. Eins og ég sagði áðan fara menn ekki í verkfall nema að vel íhuguðu máli þegar engin önnur leið er eftir. Það bar mjög lítið á milli í kjaradeilunni í gær. Það er ekkert útlit fyrir annað en að mjög fljótlega muni semjast ef þeim er gefið tækifæri til þess. Lög á verkföll safna upp vandanum og gera hann einfaldlega enn erfiðari úrlausnar þegar fram líða stundir.

Þetta er aðför að réttindum launafólks. Þetta er aðför að stöðugleikasáttmálanum. Forsvarsmenn fjölmargra annarra stéttarfélaga sem eiga aðild að stöðugleikasáttmálanum hafa lýst því yfir að verið sé að rjúfa hann með lögum sem grípa inn í kjaradeilur. Hér er að auki svokölluð vinstri stjórn að verki, stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, og ég sé a.m.k. að sá verkalýðsleiðtogi sem mest hefur haft sig í frammi um áratugina og er í þingliði Vinstri grænna er fjarverandi í dag. Ég átta mig ekki á því sjálfur og þekki ekki starfsferil þingmanna að öðru leyti og veit ekki hversu oft þeir hafa staðið í þeim sporum sem flugvirkjar standa í núna. En það er ekki þægileg staða. Þetta snýst ekki um flugvirkja og deilur þeirra, heldur snýst þetta um grundvallarréttindi sem ekki er þörf á að vega að með þessum hætti. Það eru ekki brýnir öryggishagsmunir þjóðarinnar í húfi, það eru peningalegir hagsmunir fyrirtækja, gamalkunn rök.

Vissulega valda verkföll sem þessi gríðarlegri röskun á flugi til og frá landinu og gríðarlegri röskun á fleiri þáttum samfélagsins en það er einmitt slíkur þrýstingur sem gerir það að verkum að svona verkföll leysast mjög fljótt og friðsamlega.

Mér sýnist ég horfa upp á það í dag að 63 þingmenn á Alþingi Íslendinga muni allir nema einn greiða atkvæði með þessu frumvarpi. Mér finnst það ótrúleg upplifun og ég vona svo sannarlega að ég verði ekki sá eini sem greiðir atkvæði gegn þessu. Ef svo er er um mjög alvarlegt mál að ræða og ég lýsi því yfir að ég óska eftir því við hæstv. samgönguráðherra að hann mælist til þess að málið verði í meðförum samgöngunefndar í allnokkurn tíma og deiluaðilum verði einfaldlega gefinn kostur á því að reyna að ná saman á eðlilegan máta áður en þetta verður afgreitt sem lög frá þinginu.