138. löggjafarþing — 95. fundur,  22. mars 2010.

kjaramál flugvirkja.

483. mál
[13:35]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þau varnaðarorð sem hér hafa verið flutt, það eru ekki sjálfsögð skref að setja lög á kjaradeilur. Það er hins vegar oft talað um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja á hátíðarstundum og að þau verði að taka mið af því sem er að gerast í samfélaginu hverju sinni.

Ég vil líka gera að umtalsefni samfélagslega ábyrgð stéttarfélaga vegna þess að hún skiptir mjög miklu máli. Við Íslendingar erum einfaldlega á þeim tímamótum að það er ekki svigrúm til launahækkana á nokkrum sviðum. Ég held að við hljótum að horfa á málið í heild sinni og gera þá kröfu að einhvers konar friðarskylda sé sett á vinnumarkaðinn, a.m.k. næstu mánuði, og ég held að þau skref sem hér eru stigin í dag hljóti að marka einhvers konar upphaf að slíku tímabili á vinnumarkaði. Það er gríðarlega mikilvægt að þingið sendi þessi réttu skilaboð út í samfélagið.

Þess vegna tek ég undir þau varnaðarorð sem heyrðust í máli hv. þm. Péturs Blöndals áðan. Það er ekki hægt að ganga fram í vinnudeilum í dag eins og þær séu einkamál þeirra stétta sem um ræðir. Það er langt í frá. Að öðru leyti vil ég árétta vegna þess sem fram kom í máli hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar að auðvitað er ekki ætlunin í öllum tilvikum að ganga fram og setja lög á kjaradeilur.