138. löggjafarþing — 95. fundur,  22. mars 2010.

kjaramál flugvirkja.

483. mál
[13:40]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka upp einn þráð. Mér finnst ekki hægt að halda því fram að það séu sterkar röksemdir fyrir því að fara í þessar aðgerðir núna vegna þess að sátt ríki um lánatillögur ríkisstjórnarinnar, mér finnst það ekki sannfærandi grundvöllur. Það ríkir sátt um ákveðinn hluta, já, þ.e. því hefur verið fagnað af mörgum að það á að skýra ferli sértækrar greiðsluaðlögunar, það á að hjálpa þeim sem eru í miklum vanda. Hins vegar hafa margir bent á að í aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar fyrr og nú vantar almennar aðgerðir. Það er einmitt það ásigkomulag þjóðarinnar sem við erum að tala um núna.

Það hefur vantað miklu röggsamari aðgerðir til að lækka vexti og þar með létta byrðum af skuldum hlöðnum almenningi. Það hefur ekki verið tekið vel í hugmyndir um almennar afskriftir lána eins og við framsóknarmenn höfum mælt fyrir, það hefur ekki verið tekið vel í þær. Einu almennu aðgerðirnar sem eru boðaðar í nýjasta aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar eru að skattleggja þessar afskriftir. Ekki er það aðgerð sem beinlínis gæti skapað frið á lánamarkaði.

Í málflutningi ríkisstjórnarinnar hefur skort algjörlega á að menn reyni að mæta þeirri sívaxandi kröfu á Íslandi að með einhverjum hætti þarf að nýta allt það svigrúm sem við mögulega höfum til að létta byrðum af almenningi. Í þessu ljósi verðum við að skoða kjarabaráttu einstakra stétta á Íslandi og hvort þær stéttir eru ánægðar eða ekki. Ég er alveg viss um að við værum í miklu betra ásigkomulagi á Íslandi og það væri miklu meiri sátt á vinnumarkaði ef menn hefðu farið strax í almennar aðgerðir á lánamarkaði eða í gegnum skattkerfið, vaxtabótakerfið eða eitthvað slíkt, (Forseti hringir.) strax í kjölfar hrunsins — en það var ekki gert.