138. löggjafarþing — 96. fundur,  22. mars 2010.

kjaramál flugvirkja.

483. mál
[16:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg):

Forseti. Ég flyt nefndarálit frá meiri hluta samgöngunefndar um frumvarp til laga um kjaramál flugvirkja. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur ráðuneytisstjóra og Karl Alvarsson skrifstofustjóra frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Kristján Kristinsson frá samninganefnd Flugvirkjafélags Íslands og Guðmund Pálsson, Hrafnhildi Stefánsdóttur og Svala Björgvinsson frá samninganefnd Icelandairs.

Markmið frumvarpsins er að banna ótímabundna vinnustöðvun flugvirkja. Jafnframt eru aðrar aðgerðir sem jafna má til verkfalla og ætlað er að knýja fram breytta skipan kjaramála milli aðila óheimilar. Með frumvarpinu er kjarasamningur milli Flugvirkjafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd Icelandairs hf. framlengdur til 30. nóvember 2010 en þá renna flestir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði út, auk þess sem þessi dagsetning er viðmiðunartími stöðugleikasáttmálans. Í því samhengi vekur nefndin athygli á því að nýr kjarasamningur sem gerður er með samkomulagi milli aðila gæti breytt þessum tímamörkum, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn ítrekar að með frumvarpinu er ekki verið að afnema samningsrétt flugvirkja heldur er því einungis ætlað að stöðva verkfallsaðgerðir og framlengja gildandi kjarasamning til 30. nóvember eins og áður sagði.

Engu síður er aðilum heimilt að semja um breytingar á kjarasamningnum eða gera nýjan, eins og fram kemur í 3. gr. frumvarpsins.

Kjarasamningur flugvirkja rann út í október 2009 og hafa samningaviðræður í kjaradeilunni staðið um nokkurt skeið hjá ríkissáttasemjara án árangurs. Fram kemur í frumvarpinu að flugvirkjum hafi verið boðnar sambærilegar eða meiri kjarabætur en samið hefur verið um við aðra launahópa. Að mati nefndarinnar geta hækkanir umfram það sem þegar hefur verið samið um haft neikvæð áhrif á aðra kjarasamninga og almennan stöðugleika á vinnumarkaði. Í því samhengi vekur nefndin athygli á því að með frumvarpi þessu er ekki verið að grípa inn í samkomulag sem náðist með stöðugleikasáttmálanum þegar aðilar á almenna vinnumarkaðnum náðu samkomulagi um að framlengja kjarasamninga til loka nóvember 2010.

Meiri hlutinn tekur fram að það er grundvallarregla að aðilar kjarasamninga ljúki samningum sín í milli, en til þess getur komið þegar brýna nauðsyn ber til að íhlutun ríkisvaldsins sé réttlætanleg. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að verkfall flugvirkja hefur í för með sér verulega röskun flugs bæði til og frá landinu. Það er mat meiri hlutans að verkfallið mundi valda íslensku efnahagslífi verulegu tjóni þegar síst skyldi. Auk þess mundi það raska starfi þúsunda einstaklinga og fyrirtækja um allt land og gæti hæglega haft víðtæk áhrif á starfsemi ferðaþjónustu í landinu og annan atvinnurekstur og þar með efnahag landsins alls. Meiri hlutinn leggur áherslu á að lögin séu sett vegna þeirra miklu þjóðarhagsmuna sem í húfi eru og að ekki sé gott að þurfa að grípa til lagasetningar af þessu tagi, en í ljósi efnahagsástandsins og þess hve mikið er í húfi fyrir Ísland og endurreisn efnahagslífsins telur nefndin nauðsynlegt að grípa til þessara aðgerða.

Svo virðist sem engin lausn finnist á vinnudeilunni í bráð. Á fundi nefndarinnar hefur þessi staða málsins verið staðfest enn frekar. Allar sáttatilraunir hafa mistekist og lausn er ekki í sjónmáli.

Meiri hluti nefndarinnar brýnir báða samningsaðila til að halda áfram viðræðum á vettvangi ríkissáttasemjara og ná samkomulagi sem fyrst.

Í ljósi framangreindra sjónarmiða leggur meiri hluti samgöngunefndar til að frumvarpið verði samþykkt. Þór Saari sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi en stendur ekki að áliti meiri hlutans. Undir þetta álit meiri hluta samgöngunefndar skrifa Björn Valur Gíslason, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Róbert Marshall, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Oddný Harðardóttir, Ásmundur Einar Daðason, Árni Johnsen og Ásbjörn Óttarsson.