138. löggjafarþing — 96. fundur,  22. mars 2010.

kjaramál flugvirkja.

483. mál
[16:19]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég rakti það í ræðu minni hér við 1. umr. að ég teldi mjög mikilvægt að reyna að koma á einhvers lags sátt á vinnumarkaði sem tæki mið af því að það eru erfiðir tímar, en ég held að það sé ekkert hægt að koma á slíkri sátt með einhliða valdboði. Það sýnir nú reynslan af þjóðarsáttarsamningunum á sínum tíma, það tók langan tíma og það tók mikla samræður milli aðila að koma á þeirri sátt. Hún snerist um það að halda niðri launum við erfiðar aðstæður til að mynda, ná niður vöxtum, ná niður verðlagi. Þetta var ansi mikið ferli og ég hef auglýst eftir þessu ferli í fordæmalausum aðstæðum íslensks efnahagslífs og það hefur ekki farið fram. Stöðugleikasáttmálinn er ekkert ferli þessu líkt. Þannig að auðvitað hljótum við í þessum anda sem þú ert að kalla eftir, hv. þm. Pétur H. Blöndal, að auglýsa eftir einhvers konar þjóðarsátt í landinu um þetta, að menn haldi aftur af launakröfum sínum, að það verði líka haldið aftur af verðlagi og það verði farið í það að lækka vexti. Um þetta þrennt hlýtur sátt að eiga að vera um, en hún er ekki í samfélaginu eins og það er í dag. Það er auðvitað áfellisdómur og ég vona að hæstv. þingmaður hv. sé sammála mér um það.