138. löggjafarþing — 96. fundur,  22. mars 2010.

kjaramál flugvirkja.

483. mál
[16:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í upphafi síðustu aldar var örbirgð mikil og þá gripu launastéttirnar, sérstaklega láglaunastéttirnar, til þess að fara í verkföll og þau voru bráðnauðsynleg til að keyra fram betri lífskjör. Síðan hefur það gerst í rás tímans að verkföllin hafa breyst mjög mikið. Fyrir 5–10 árum var láglaunastéttunum att fram í verkföll og þær látnar herja fram launahækkanir, síðan komu hálaunastéttirnar á eftir og sömdu um miklu hærri laun á bökum láglaunastéttanna. Það má segja að í byrjun síðustu aldar hafi þetta verið neyðarréttur og síðan hafi hann breyst, sumir kalla það ofbeldi sem oft og tíðum bitnar á þriðja aðila en alls ekki þeim sem verkfallið beinist gegn. Fjöldi manns er núna strandaglópar út af þessu verkfalli. Einstaklingar sem ætluðu að mæta í fermingu, við jarðarför eða eitthvað slíkt eru strandaglópar. Þeir upplifa þetta sem ofbeldi.

Það má segja að í núverandi stöðu veiti verkfallsrétturinn þeim stéttum hæstu launin sem valda viðsemjendum sínum eða þriðja aðila mestu tjóni, heilu atvinnugreinunum eða einstaklingum, miðað við það tjón sem þeir sjálfir verða fyrir. Menn fara kannski í 2–4 tíma verkfall og valda óskaplegu tjóni úti um allt. Ferðamenn hætta við að koma til landsins. Ferðaþjónustan líður fyrir þetta og heilu stéttirnar líða fyrir þetta, einstaklingar líka. Þeir sem fara í verkfall bíða hins vegar lítið tjón, sama sem ekki neitt. Þetta er mikil brotalöm á verkfallsréttinum. Ég hef ekki lausn á vandanum en þetta kann að valda því að verkfallsrétturinn verði svo óvinsæll meðal almennings að hann geti skaðað þennan grunnrétt launþega til að berjast fyrir rétti sínum. Þess vegna þurfa stéttarfélög virkilega að skoða hvaða tjóni þau valda, sérstaklega á verkfallsréttinum sjálfum. Ég held að verkalýðshreyfingin öll og Samtök atvinnulífsins ættu í kjölfar þessa að skoða hvort ekki sé til einhver betri lausn, einhver meiri takmörkun á verkfallsréttinum, án þess þó að eyðileggja þennan grunnrétt sem launþegar þurfa að hafa.