138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

kjaramál flugvirkja.

483. mál
[16:58]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar. Við göngum hér til síðustu atkvæðagreiðslu um frumvarp til laga um að banna verkfall flugvirkja. Þessi lög eru ekki eingöngu lög á þetta eina verkfall, þetta eru lög á öll verkföll og allar kjaradeilur fram undan. Hér er verið að greiða launþegum landsins gríðarlegt högg. Með þessari lagasetningu er verið að svipta alla launþega landsins rétti sínum til að ná fram kjarabótum. Það er ekki eingöngu vegið að flugvirkjum.

Launþegasamtök landsins hljóta að íhuga það alvarlega að snúa nú bökum saman og segja sig úr þeim samtökum sem bera það skrýtna nafn í dag, Alþýðusamband Íslands, því að þau gæta ekki hagsmuna alþýðunnar lengur. Það er sorgardagur að verða vitni að þessu í þinginu, þetta er vont mál og þetta eru vond endalok á máli sem hefði getað fengið miklu betri endi.