138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

aðstoð til skuldsettra heimila.

[17:03]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Fyrir helgi sagði nokkurn veginn hálf ríkisstjórnin við alþjóð að nú væri hin endanlega lausn fyrir skuldavanda heimilanna fundin, hún lægi á borðinu. Allir vita sem hafa fylgt með og vilja sjá og heyra átta sig auðvitað á því að svo er ekki. Það er rétt að draga fram að vissulega hafa verið stigin nokkur jákvæð skref en þá sérstaklega fyrir þá sem eru þegar komnir í nauð með vandamál sín. Úrræði fyrir þá eru að verða nokkuð góð og gild en fyrir aðra, sérstaklega almenning í landinu, hefur ríkisstjórnin ekki náð að klára málið svo því sé haldið til haga. Með þessum tillögum sínum hefur hún til að mynda ekkert hugsað um hvað hægt er að gera til að takmarka þann fjölda sem þarf á neyðarúrræðum að halda. Hún hefur ekkert gert til að lágmarka þann fjölda sem fer í nauðasamninga.

Eftir atburði helgarinnar þar sem við sáum hversu mikilvægt það er að sýna samstöðu og samvinnu þegar einhverjar ógnir steðja að, ég er auðvitað að tala um gosið á Fimmvörðuhálsi, sjáum við hvað samhæfðar aðgerðir skipta miklu máli. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvort ekki sé núna lag að við, í rauninni forustumenn stjórnmálaflokkanna, sendum til að mynda efnahags- og skattanefnd þingsins þau skilaboð að hún eigi að taka þetta mál upp og vinna að þverpólitískri sátt innan þingnefndarinnar, vinna að því að fá enn betri lausnir fyrir heimilin í landinu. Hin endanlega lausn var ekki kynnt fyrir helgi, við þurfum öll að vinna frekar í málinu. Gerum það saman. Er ekki lag fyrir okkur að senda efnahags- og skattanefnd (Forseti hringir.) þingsins þau skilaboð að við getum unnið þetta samhent á vettvangi þingsins og sýnt samstöðu í þessu máli?