138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

aðstoð til skuldsettra heimila.

[17:05]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ríkisstjórnin kynnti mjög víðtækar aðgerðir fyrir helgi sem ég trúi að gagnist flestum heimilum sem komin eru í vanda eins og hv. þingmaður tók reyndar undir. Ef hv. þingmaður er að tala um almennar afskriftir lána fyrir heimilin í landinu vandast málið vegna þess að á því eru ýmsir vankantar. Ég tel þó alveg nauðsynlegt að gerð verði úttekt og birt greinargerð um hvernig staðið hefur verið að afskriftum í bönkunum og hvort það sé rétt að það svigrúm sé fyrir hendi sem verið er að tala um. Við verðum líka að átta okkur á því að ef farið er í almennar afskriftir erum við líka væntanlega að tala um Íbúðalánasjóð þar sem meginþorri íbúðalána er. Þær úttektir sem þar hafa verið gerðar sýna að Íbúðalánasjóður mun ekki þola miklar almennar afskriftir og ekki heldur lífeyrissjóðirnir vegna þess að þá er alveg ljóst að við yrðum að fara í skerðingu á lífeyrisréttindum.

Það sem á eftir að gera og kynna eru bílalánin sem félagsmálaráðherra er að vinna með. Síðan á eftir að útskýra það sem fram hefur komið og kallast skattlagning á afskriftum. Það mál er enn í ríkisstjórn og mér finnst hafa gætt mikils misskilnings í umræðunni um það sem þarf þá að fara yfir. Almenn niðurfelling skulda umfram þennan þrönga nauðungarsamningsramma og gjaldþrotafarveg hefur verið skattskyld hingað til, beinar afskriftir, þannig að hér er ekki um neina nýja skattlagningu að ræða. Afskriftir í nauðasamningum og við gjaldþrot hafa hins vegar ekki verið skattlagðar. Við erum að vinna að þessari útfærslu og hún mun auðvitað gagnast einstaklingum sem fá þessar afskriftir.

Síðan megum við ekki gleyma því að við erum að fara í greiðsluaðlögun sem mun þýða verulegar afskriftir fyrir fjölda heimila í landinu sem eru í miklum erfiðleikum. En ég er tilbúin að (Forseti hringir.) skoða það sem hv. þingmaður nefnir, að við skoðum almennt greiningu á því svigrúmi sem menn eru að tala um að sé fyrir hendi í bönkunum. Ég minni í þessu sambandi á bæði lífeyrissjóðina og Íbúðalánasjóð sem þarf að hafa í huga ef menn sjá einhverjar leiðir til að fara í afskriftir. (Forseti hringir.)