138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

aðstoð til skuldsettra heimila.

[17:08]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég ætla að taka þessu sem jákvæðu svari, því að forsætisráðherra sé reiðubúin til að beita sér fyrir því að farið verði í þverpólitíska vinnu eða sátt innan efnahags- og skattanefndar um að fara í að skoða leiðir fyrir almenn úrræði. Ég ætla ekki að koma með lausnirnar hér. Þingmenn úr öllum flokkum hafa bent á lausnir, mismunandi lausnir með mismunandi áherslur, þingmenn Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Hreyfingarinnar, en við erum líka búin að heyra skoðanir meðal stjórnarliða sem hafa sagt að þetta sé ekki nóg, það þurfi að gera meira en það sem ríkisstjórnin kynnti fyrir helgi. Það dugar skammt.

Þess vegna finnst mér rétt að ítreka spurningu mína: Ætlar ekki forsætisráðherra að taka í okkar útréttu sáttarhönd, m.a. okkar sjálfstæðismanna, til að fara yfir þetta, skoða hvaða lausnir eru í boði, fara yfir hugmyndir flokksmanna allra flokka til að reyna að ná þeirri breiðu sátt sem er mikilvæg fyrir almenning í landinu, ekki koma með einhverja betrumbætur á þau úrræði sem fyrir eru (Forseti hringir.) heldur koma með raunveruleg úrræði til að koma í veg fyrir að fólk (Forseti hringir.) fari í þrot? Við þurfum að koma með þannig úrræði.