138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

aðstoð til skuldsettra heimila.

[17:09]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður verður líka að átta sig á því að þau úrræði sem þegar eru komin fram, sem eru um 40 talsins, eru ekki bara úrræði fyrir þau heimili sem eru í mestum vanda heldur líka fyrir aðra sem eru í tímabundnum vandræðum. Ég hef ekki tíma til að fara yfir þau hér en þau eru fjölmörg, m.a. greiðslujöfnunin, vandamál þeirra sem hafa ekki getað selt, þ.e. eru með tvær eignir, sértæk greiðsluaðlögun o.s.frv. Það eru ýmis úrræði fyrir þá sem eru ekki í miklum vanda en eru þó að nálgast það að vera í vanda.

Ég er tilbúin eins og ég sagði áðan til að við skoðum þetta í bönkunum, við skoðum það að láta gera úttekt og greiningu á þessu sem er í bönkunum, þessu afskriftasvigrúmi sem menn tala um. Ég tel að þegar menn hafa skoðað það vandlega komi bara í ljós sem við höfum margsagt að hér er ekki svigrúm til að fara í almennar niðurfellingar á skuldum. Sumir einstaklingar þurfa kannski á (Forseti hringir.) 90–100% afskriftum að halda og það veitir greiðsluaðlögunin sannarlega. Sumir þurfa miklu minna og sumir þurfa ekki neitt. Við skulum sannarlega skoða saman og greina það (Forseti hringir.) svigrúm sem er fyrir hendi í bönkunum og líka skoða hjá Íbúðalánasjóði og (Forseti hringir.) lífeyrissjóðunum. Það má ekki gleymast.