138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

skattlagning afskrifta.

[17:11]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það er ákaflega ánægjulegt að hæstv. forsætisráðherra skuli vera tilbúin til að skoða svigrúm til afskrifta eins og framsóknarmenn og fleiri hafa beðið um í meira en ár. Fer það að verða tímabært. Þá vakna spurningar um það sem bar einnig á góma áðan, ævintýralegar hugmyndir ríkisstjórnarinnar um að skattleggja þessar afskriftir komi til þeirra. Það er að vísu rétt sem hæstv. forsætisráðherra segir, afskriftir hafa að hluta til verið skattskyldar, en það er vegna þess að þar gerðu menn ráð fyrir allt annars konar aðstæðum og öðrum ástæðum fyrir afskriftum en nú er rætt um. Nú er verið að tala um eðlilega leiðréttingu á skuldum. Að fara að skattleggja þá leiðréttingu er einfaldlega órökrétt, hvort heldur út frá réttlæti eða efnahagslegum forsendum.

Þessi ríkisstjórn hefur reyndar sýnt alveg ótrúlega hugmyndaauðgi í skattlagningu. Það er eina sviðið þar sem þessi ríkisstjórn hefur virkilega látið til sín taka. Áður hefur verið bent á að skattstofnarnir sem stjórnin ætlaði að nota til skattlagningar voru ekki til. Hvað kom svo á daginn? Að sjálfsögðu voru skatttekjurnar fyrir vikið miklu minni en áætlaðar voru. Og ekki nóg með það, heldur hafa alveg gríðarlegar upphæðir sem eru reiknaður skattur ekki skilað sér. Menn tala um 112 milljarða kr. um síðustu áramót. Hvað á þá að gera í þessu til viðbótar? Það á að finna upp enn einn skattinn og skattleggja það sem er ekki til, skattleggja nánast tap, skattleggja það sem verið er að lækka skuldir hjá fólki um. Nú hlýtur það að vera ljóst, sérstaklega í ljósi nálgunar ríkisstjórnarinnar á niðurfellingu eða lækkun skulda, að einungis er felldur niður sá hluti skuldar sem fólk hefur ekki efni á að borga. Ef það er verið að fella niður það sem fólk hefur ekki efni á að borga, hvers vegna í ósköpunum ætti það frekar (Forseti hringir.) að hafa efni á að greiða ríkinu það en kröfuhafanum?