138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

stöðugleikasáttmálinn.

[17:22]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vek bara athygli á því hvað hæstv. forsætisráðherra sagði. Hæstv. forsætisráðherra sagði að það kæmi henni á óvart ef stöðugleikasáttmálinn færi.

Virðulegi forseti. Hvað er hæstv. forsætisráðherra búin að vera að gera? Að koma hér og segja að þetta sé eitthvert einkamál einhverra einna hagsmunasamtaka er algjörlega fráleitt. Ég var á 500 manna fundi í Vestmannaeyjum þar sem allir í þeim bæ voru sameinaðir að berjast gegn þessu máli, (Gripið fram í.) frá verkalýðshreyfingunni til útvegsmanna og bæjaryfirvalda. Það var helst Róbert Marshall sem var ekki sammála en hann er hv. þingmaður fyrir Suðurland.

Það er búið, virðulegi forseti, að taka þetta upp hvað eftir annað. Það er búið að senda bréf þar sem það kemur alveg sérstaklega fram að aðilar (Forseti hringir.) vinnumarkaðarins vilji ekki þola að þetta mál verði samþykkt. Það er búið að biðja um að það fari í sáttanefnd. Ríkisstjórnin er búin að brjóta þetta allt saman og hún er ekki með neina áætlun. Hún ætlar bara að klára þetta í dag og hæstv. (Forseti hringir.) forsætisráðherra leyfir sér að koma hérna upp og segja að þetta komi henni bara allt mjög á óvart.

Ég spyr aftur: (Forseti hringir.) Hvað ætlar hæstv. forsætisráðherra að gera? Hver er (Forseti hringir.) áætlun ríkisstjórnarinnar þegar búið er að gera út um stöðugleikasáttmálann sem verður gert á eftir?