138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:53]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eins og allir vita er þetta frumvarp eins konar pólitísk fýlubomba sem hæstv. ríkisstjórn henti inn í það ágæta starf sem nú stendur yfir um endurskoðun á fiskveiðilöggjöfinni með aðkomu allra stjórnmálaflokka og hagsmunaaðila. Það er enginn vafi á því að þetta frumvarp hefur truflað það starf nefndarinnar mjög eins og hefur komið á daginn og veldur því nú að sjálfur stöðugleikasáttmálinn er í fullkominni óvissu og uppnámi. Það vantar hins vegar ekki að á bak við þetta frumvarp er mjög skýr stefnumótun af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra greindi frá því þegar hann flutti þetta mál og fylgdi því úr hlaði að markmiðið væri ekki síst að draga úr svigrúmi og sveigjanleika í fiskveiðistjórnarkerfinu, með öðrum orðum að minnka hagræðingarmöguleika sjávarútvegsins og draga þannig úr möguleikum sjávarútvegsins til að standa undir þeirri lífskjarasókn (Forseti hringir.) sem okkur er svo mikilvæg.

Slíku frumvarpi sem svona er í pottinn búið með, frumvarpi sem í senn eyðileggur stöðugleikasáttmálann, truflar endurskoðunarvinnuna (Forseti hringir.) og dregur úr hagkvæmni, verðum við að hafna.