138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:56]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er undarlegt að stjórnmálahreyfing líkt og Vinstri hreyfingin – grænt framboð skuli leggja fram frumvarp eins og hér er kveðið á um sem mun heimila ofveiði á einni fisktegund og það er hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason sem er ábyrgur fyrir því. Hvar er umhverfisstefna Vinstri grænna í orði? Hún er a.m.k. ekki á borði hér á Íslandi í dag, svo mikið er víst. (Utanrrh.: Hvaða, hvaða.) Við skulum ræða um annað um leið og hæstv. utanríkisráðherra grípur hér fram í fyrir mér. Hvað varð um stöðugleikasáttmálann sem hæstv. utanríkisráðherra stóð að? (Gripið fram í.) Það er í raun og veru orðinn sáttmáli um kyrrstöðu, ríkisstjórnin hefur svikið aðila vinnumarkaðarins með því að leggja fram þetta frumvarp hér og knýja það í gegn á Alþingi á þeim tímum þegar við þurfum hvað mest á samstöðu og samvinnu að halda í íslensku samfélagi. Þetta vinnulag gengur einfaldlega ekki og þess vegna get ég ekki með nokkru móti staðið að þessari lagasetningu hér. Því segi ég nei.