138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:08]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég er út af fyrir sig ánægður með að menn fylgi ekki tillögum Hafró út í eitt. Ég hef verið þeirrar skoðunar lengi að menn eigi að ganga aðeins lengra og auka fiskveiðikvótann hvar sem er og ég held að það sé nauðsynlegt núna.

Það sem truflar mig hins vegar svolítið í þessari umræðu er að þetta mál skyldi vera keyrt fram hjá samráðsnefnd um kvótakerfið vegna þess að á undanförnum vikum hafa þingmenn, einna helst Samfylkingarinnar, stigið í pontu, barið sér á brjóst, slegið sjálfa sig til riddara og talað um sátt og samvinnu í þjóðfélaginu. Ég skil málið ekki öðruvísi en að Samfylkingin vilji að allir séu sammála henni og ef það næst sátt um að menn samþykki tillögur hennar sé öllu reddað. Auðvitað snýst þetta ekki (Forseti hringir.) um það. Það er algerlega fáránlegt að þetta mál skyldi hafa verið unnið fram hjá samráðsnefndinni.