138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:10]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þetta er sorglegur dagur og það er alveg ábyggilegt að það stóð aldrei til hjá þessari ríkisstjórn sem talar um samráð og sátt í öðru hvoru orði að ná sátt um þetta mál. Hæstv. forsætisráðherra verð ég að hryggja með því að segja: Víst snýst stöðugleikasáttmálinn um skötusel. Eins og hefur verið talað um hérna verður stöðugleikasáttmálanum sagt upp út af skötusel þannig að það eru hártoganir að segja að hann snúist ekki um hann.

Það er átakanlegt að fylgjast með því að í samfélagi þar sem við höfum svo mörg verkefni sem við gætum varið tímanum í að þrasa um þurfum við að þrasa um einhverja hluti sem eru í samfélaginu. Það er ekkert sem hastar á það að breyta og setja undirstöðuatvinnuveginn í uppnám þegar við höfum svo margt annað að sýsla. Friðarskyldan sem hv. þm. Róbert Marshall talaði (Forseti hringir.) svo um áðan er sannarlega rofin, hún er rofin af ríkisstjórninni og hún segir að það sé í nafni samstöðu. Þetta er (Forseti hringir.) fullkomlega óskiljanlegt.