138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:35]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er leitt til þess að vita að hér hefur orðið uppi mikill ágreiningur út af litlu máli að mínu mati. Í gangi hefur verið vinna, og er áfram, við að reyna að ná ákveðnum sáttum í sambandi við sjávarútveginn til langs tíma. Einhverra hluta vegna hafa menn valið að gera ágreining um það sem lagt var af stað með í upphafi sem mál sem væri afgreiðslumál til hliðar við þá sáttanefnd sem ég hef leitt. Það átti því ekki að koma neinum á óvart þó að fram kæmi frumvarp eins og það sem hér er verið að afgreiða.

Það ákvæði sem hefur valdið hvað mestum deilum er bráðabirgðaákvæði. Fyrst og fremst er unnið að því að reyna að ná friði þar sem allir aðilar verða að sætta sig við að víkja frá sinni ýtrustu stefnu og reyna þannig að tryggja að hér verði ekki togast á um framtíð sjávarútvegs í hverjum kosningum. Þeirri sáttanefnd verður haldið áfram, a.m.k. meðan stætt er. Jafnvel þó að LÍÚ og Samtök fiskvinnslustöðva verði ekki í þeim hópi látum við reyna á það (Forseti hringir.) hvort önnur hagsmunasamtök verði með okkur í þeirri vinnu og áfram er markmiðið að horfa til langs tíma og leita lausna sem við getum náð varanlegri sátt um.