138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:38]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég fagna þeirri niðurstöðu sem hér er orðin. Um málið eru skiptar skoðanir eins og ljóslega hefur komið fram í þingsal í dag. Ég vil engu að síður þakka nefndarmönnum öllum í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fyrir málefnalega umræðu um málið innan nefndarinnar. Þó að við höfum ekki enn borið gæfu til að ná sameiginlegri niðurstöðu var umfjöllunin í nefndinni að mínu mati til fyrirmyndar og fyrir það vil ég þakka. Enn fremur vil ég þakka ritara nefndarinnar fyrir mjög vel unnin störf.

Ég vil að lokum ítreka að hér er um bráðabirgðaákvæði að ræða. Um er að ræða heimildarákvæði og sáttanefndin mun eftir sem áður hafa þetta mál á sinni könnu til varanlegrar lausnar.