138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:40]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það er ekki verið að breyta 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna. Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar og það stendur í fiskveiðistjórnarlögunum. Hins vegar er verið að breyta leikreglunum varðandi sjávarútvegsmálin. Við vitum vel að það er ekki nægilega mikil sátt um þær leikreglur. Að störfum er sáttanefnd um sjávarútvegsmál og við höfum ekki enn þá fengið svör við því af hverju þetta mál er keyrt í gegn af svona miklu offorsi. Af hverju getur það ekki beðið? Við vitum að það er ekki verið að veiða skötusel einmitt núna. Af hverju getur ríkisstjórnin ekki haft manndóm í sér og sagt: Við skulum bíða með þetta mál, reynum að ná sem bestum sáttum um þessa mikilvægu atvinnugrein okkar. Ég spyr: Er raunverulegur sáttavilji af hálfu ríkisstjórnar og ríkisstjórnarflokkanna ekki til staðar? Ég segi nei við þessum vinnubrögðum. Ég segi nei við þessu máli.