138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að brýna Samtök atvinnulífsins til að ganga fram af ábyrgð á þeim viðsjárverðu tímum sem nú fara í hönd. Í gær settum við lög á verkfall flugvirkja vegna þeirra alvarlegu áhrifa sem það hefði í för með sér til skemmri og lengri tíma fyrir viðkvæmt efnahagslíf Íslands. Þannig eru núna slíkir tímir að jafnvel hinn helgi verkfallsréttur víkur fyrir þjóðarhag.

Í gær var breytt lögum um stjórn fiskveiða. Um flesta þætti þeirrar breytingar ríkir ágæt sátt en tímabundið heimildarúrræði sem hugsanlega gæti leitt til þess að boðin verði upp nokkur hundruð tonn af skötuselskvóta hefur orðið til þess að Samtök atvinnulífsins hafa einhliða sagt upp stöðugleikasáttmálanum. Því ber að halda rækilega til haga í opinberri umræðu að ríkisstjórnin hefur freistað þess að ná samkomulagi um þetta mál við Landssamband íslenskra útvegsmanna en þvergirðingshætti þeirra er ekki við jafnað. Frekja þeirra er svo yfirgengileg að slíkt kom ekki til tals.

Þess ber líka að geta að LÍÚ lagði til við sjávarútvegsráðherra á síðasta ári að útgefnar veiðiheimildir yrðu 500 tonn umfram ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Það er því ekki af sérstakri umhyggju fyrir lífríkinu sem framganga þeirra markast. Það getur ekki verið að atvinnulífið allt sé svo ábyrgðarlaust að það fylgi forustu sinni að málum vegna nokkur hundruð tonna af skötusel sem ekki er einu sinni víst að verði ráðstafað sem aflaheimildum.

Það verður að hvetja samtökin til að hugsa eins og allir Íslendingar gera nú, hvað er best fyrir Ísland á þessum tímapunkti, í stað þess að hugsa fyrst og fremst um eigin hagsmuni. Málflutningur Samtaka atvinnulífsins er fyrirsláttur og framganga þeirra fyrst og fremst varðstaða um kerfi sem mikill meiri hluti þjóðarinnar er algjörlega á móti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)