138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

(Gripið fram í: Láttu þá heyra það.) Virðulegi forseti. Ég kem enn og aftur upp undir liðnum um störf þingsins til að leita samstöðu þingheims um atvinnuuppbyggingu í landinu. (Gripið fram í.) Í þeim efnum tel ég að miðað við núverandi aðstæður verðum við að leita allra leiða til að glæða athafnalífið í byggðum hér á landi.

Virðulegi forseti. Auknar veiðiheimildir hljóta að koma til greina um þessar mundir. Sá sem hér stendur hefur á síðustu vikum og mánuðum talað við fjölda skipstjórnenda, fiskverkenda og sjómanna víða á landinu og þar eru menn á einu máli um óvenjulega mikla fiskgengd jafnt um norðvestanvert landið sem og fyrir austan land, en þar segjast menn sjaldan hafa upplifað annað eins lífríki í hafinu og nú um stundir. (Utanrrh.: Þeir segja þetta á hverju ári, Sigmundur.) [Hlátur í þingsal.] Við eigum að hlusta á þessa fiskifræðinga okkar, hæstv. utanríkisráðherra.

Virðulegi forseti. Hvað er hér í húfi? Hundruð starfa hringinn í kringum landið. Ef frekari veiði verður ekki leyfð horfum við fram á 2–3 mánaða stopp í fiskvinnsluhúsum landsins yfir hábjargræðistímann. Mér verður ekki síst hugsað til ungs skólafólks í þessu sambandi. Hér verður engin áhætta tekin. 30.000–40.000 tonna auknar veiðiheimildir eru innan áhættumarka en þær geta líka gert gæfumuninn, jafnt í störfum sem gjaldeyrisöflun. Ég skora á þingheim að brýna ráðherra sjávarútvegsmála í þessum efnum. Það er hans að breyta reglugerð. Útfærslan getur verið með öllu sniði en hún verður einkanlega að fjölga störfum og koma byggðunum til góða.

Hér þarf þingheimur að standa saman. Oft var þörf en nú er nauðsyn.