138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrir að brýna þingið í að skapa hér atvinnutækifæri. Ég hvet hv. þingmann til að tala við efsta mann á lista í sínu eigin kjördæmi fyrir Samfylkinguna, hæstv. samgönguráðherra, sem hefur ekki tíma til að tala við hv. þm. Jón Gunnarsson um atvinnumálin. Kannski hefur hann tíma 12. apríl þegar þingið kemur aftur saman, ég veit það ekki, en ég hvet hv. þm. Sigmund Erni Rúnarsson og forseta þingsins til að sjá til þess að hæstv. ráðherra hafi tíma til að ræða atvinnumálin, í þessu tilfelli við hv. þm. Jón Gunnarsson. (BJJ: Hárrétt.) Þetta er hneisa. (BJJ: Já.)

Virðulegi forseti. Hér verður á eftir að frumkvæði hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur rætt um stöðugleikasáttmálann. Hér kom hv. þm. Róbert Marshall og sagði okkur frá því að ASÍ kallar framgöngu ríkisstjórnarinnar offors. Nú skal spinna, nú skal búa til stríð við LÍÚ. Það vantar einhver góð mál hjá ríkisstjórninni og nú skal bara spinna. Stöðugleikasáttmálinn er aukaatriði. Það að skrifa undir það að vera með sátt í sjávarútvegsmálum, að vinna með aðilum vinnumarkaðarins í sjávarútvegsmálum, er aukaatriði. Nú skal spinna. Allt annað er aukaatriði.

Virðulegi forseti. Við erum í gríðarlega alvarlegum málum hér, ekki út af ytri aðstæðum heldur vegna þess að við erum með ríkisstjórn sem er fullkomlega ábyrgðarlaus. Í gær kom hæstv. forsætisráðherra hingað og skrökvaði að þinginu, sagði að það kæmi sér á óvart (Forseti hringir.) að stöðugleikasáttmálanum yrði sagt upp ef viðkomandi frumvarp fengist samþykkt. (Forseti hringir.) Hæstv. forsætisráðherra var það fullljóst þá eins og nú, og í því liggur vandinn að hæstv. forsætisráðherra sagði ekki satt.