138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að taka heils hugar undir þakklætisorð hv. 1. þm. Suðurk. Björgvins G. Sigurðssonar í garð heimamanna í Rangárvallasýslu og allra sem þar hafa komið nærri. Starf þeirra eftir eldsumbrotin hafa vakið verðskuldaða aðdáun og virðingu allra.

Umfjöllunarefni mitt er þetta fyrirtæki ECA sem er, hvað sem menn vilja, hernaðartengt fyrirtæki sem er andstætt stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og andstætt samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að Ísland verði boðið fram sem vettvangur friðarumræðna. Við ætlum í alþjóðasamstarfi að leggja áherslu á þróunaraðstoð, mannréttindi, kvenfrelsi og þar fram eftir götunum, að framlag Íslands til friðargæslu í heiminum verði fyrst og fremst á sviði sáttaumleitana, uppbyggingar borgaralegra stofnana, jafnréttis og mannúðarmála. Þetta fyrirtæki fer ekki þar inn.

Það fer líka í bága við aðra hagsmuni Reykjaness. Náttúruperlan Reykjanes er alveg ótrúleg uppspretta af náttúrufyrirbærum og öðru slíku og perla í ferðaþjónustu sem slík herþotustarfsemi mundi óhjákvæmileg spilla. (Gripið fram í.) Ég harma það líka að þingmenn skuli koma hér upp trekk í trekk og vekja óréttmætar væntingar heimamanna til fyrirtækja sem að þessu leyti eru skúffufyrirtæki og liggur ekkert fyrir um. Það er engin áreiðanleikakönnun eða nokkur skapaður hlutur, og á heimasíðu fyrirtækisins er gefið í skyn að Ásbrú sé heimahöfn þess. Þeir nýta m.a.s. myndir af húsnæði á vellinum til að auglýsa sig. Það vita allir sem vilja vita að fyrirtækið er ekki með neina starfsemi á vellinum og það finnst ekkert um þetta fyrirtæki ef maður leitar á veraldarvefnum, ekki nokkur skapaður hlutur. Síðan eru slegnar pólitískar keilur á þessum grundvelli. Það liggur ekkert fyrir á borðinu þarna. Það er vont (Forseti hringir.) að skapa óréttmætar væntingar til atvinnu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)