138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

úttekt á virkjunarkostum fyrir álframleiðslu.

91. mál
[15:15]
Horfa

Flm. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um úttekt á virkjunarkostum fyrir álframleiðslu. Ásamt þeirri sem hér stendur eru flutningsmenn tillögunnar þau Atli Gíslason, Lilja Mósesdóttir og Davíð Stefánsson.

Tillagan felur í sér að Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að láta Orkustofnun í samráði við Umhverfisstofnun taka saman yfirlit um þær virkjarnir vatnsafls og jarðvarma sem ráðgert er að framleiði orku fyrir 306.000 tonna álverksmiðju í Helguvík, 360.000 tonna álverksmiðju á Bakka við Húsavík og 40.000 tonna stækkun álbræðslunnar í Straumsvík.

Þessi tillaga var lögð fram snemma á síðastliðnu hausti. Það var gert ráð fyrir að ráðherra legði fram skýrslu um málið fyrir Alþingi eigi síðar en 15. desember 2009. Sú dagsetning er augljóslega liðin því tillagan fékkst ekki rædd eða kom ekki á dagskrá. Ég tel hins vegar mjög mikilvægt að dagsetningin sé einfaldlega færð og upplagt væri ef iðnaðarráðherra gæti gefið Alþingi slíka skýrslu fyrir þinglok í vor og að vegna breyttra aðstæðna yrði einblínt á fyrirhugaða álverksmiðju í Helguvík og yfirlit yfir þær virkjanir sem ráðgert er að framleiði orku fyrir það álver.

Eins og við vitum krefst fátt meiri orku en álframleiðsla en hún tekur núna til sín 12.434 gígavattstundir af raforku á ári. Nú þegar verja Íslendingar um 80% af framleiddri orku hérlendis til stóriðju, þar af langmestu eða 72,7% til álframleiðslu. Það er engin þjóð í öllum heiminum sem ver svo háu hlutfalli framleiddrar orku til orkufreks iðnaðar. Þar á hins vegar ekki að staldra við, ef marka má fyrirliggjandi hugmyndir, við ætlum að verða heimsmeistarar heimsmeistaranna í því hvernig við verjum orku okkar til áframhaldandi stóriðju ef svo fer fram sem horfir.

Ég hef áður gert að umtalsefni hinar ýmsu hliðar stóriðjustefnunnar. Áður en ég vík enn frekar að inntaki þessarar ályktunar sem lýtur bara að afmörkuðum þætti þeirrar stefnu er kannski rétt að tæpa á nokkrum ólíkum hliðum sem verður að hafa í huga í heildarmyndinni.

Það er náttúrlega þannig — sem þessi tillaga tekur í raun ekki á — að eins og við vitum hafa stóriðjuframkvæmdir í för með sér gríðarlega eyðileggingu á náttúrunni, eiginlega eingöngu vistkerfa og landslags og lífríkis, mikla losun gróðurhúsalofttegunda. Við vitum líka að það eru ekki bara Íslendingar sem hafa sagst ætla að verða metnaðarfyllri í þeim málum heldur er þetta eitt stærsta verkefni alþjóðasamfélagsins til framtíðar, þ.e. að taka á loftslagsmálum og loftslagsbreytingum og þar er öll jörðin undir.

Ferðaþjónustan er eitt alstærsta vopn og tæki okkar til þess að halda sjó í þeirri kreppu sem við finnum okkur í. Það stefnir í metár ferðaþjónustunnar núna frá upphafi. Og hvað er það sem allar kannanir sýna að ferðalangar til Íslands vilji sjá og upplifa þegar þeir koma? Jú, það er einmitt náttúra landsins og landslag sem ber höfuð og herðar yfir allt annað. Þarna liggja því augljóslega gríðarleg verðmæti. Nú síðast í morgun stóð á forsíðu Fréttablaðsins að mikill meiri hluti landsmanna vill alls ekki að slegið sé af kröfum hvað varðar umhverfisvernd, þrátt fyrir kreppuna, þrátt fyrir atvinnuleysið og þrátt fyrir þær erfiðu aðstæður sem við finnum okkur í.

Ég sé að hér labbar hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins í salinn en það vakti einmitt eftirtekt mína að 31% kjósenda Sjálfstæðisflokksins er á þeirri skoðun að ekki skuli slegið af umhverfiskröfum og sama sinnis eru tæp 40% kjósenda Framsóknarflokksins. Ég held því að þetta hljóti að vera umhugsunarefni fyrir okkur öll nú á tímum þegar eilíflega og næstum því á hverjum degi er kallað á frekari stóriðju til þess, að því sagt er, að rétta úr kútnum á Íslandi.

Auk þess eru þessi störf alveg gríðarlega dýr en hvert og eitt starf kostar gríðarlega fjárfestingu. Í því samhengi er ágætt að minna á að mjög margir hagfræðingar, úr öllum áttum og úr öllum flokkum, hafa bent á að þetta sé ekki rétta leiðin fram á við, óháð umhverfinu, óháð náttúrunni, heldur hreinlega efnahagslega. Í því sambandi má t.d. vitna í viðtal við Finnboga Jónsson, framkvæmdastjóra Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, frá 3. október 2009, en hann segir að stóriðjustörf séu þau dýrustu í heimi og það síðasta sem við eigum að gera núna sé að einblína á þau heldur setja peningana í annað, eitthvað sem framkalli fleiri og fjölbreyttari sprota, enda sé lítill gróði sem sitji eftir.

Í síðustu viku skrifaði Jón Steinsson hagfræðingur við Kólumbíu-háskóla álíka grein þar sem hann varaði okkur eindregið við því nú í þessu stressi og taugaáfalli yfir kreppunni og erfiðum aðstæðum að sóa okkar gríðarlega dýrmætu orkuauðlindum í áframhaldandi stóriðju. Þá kemur kannski að þeim þætti sem tillaga okkar tekur sérstaklega til en það er sú staðreynd að orkuauðlindir okkar Íslendinga eru takmarkaðar. Hugarfar okkar og orð og gjörðir hingað til og enn þá virðast ekki taka mið af þeirri staðreynd, þeim raunveruleika að þótt Ísland sé vissulega einstaklega auðugt af orkuauðlindum og orkulindum eru þær samt mjög takmarkaðar. Það verður að umgangast þær af gríðarlegri virðingu og framsýni og ef við ætlum að nýta þær þá eigum við að nýta þær á sjálfbæran hátt og að sjálfsögðu með þeim hætti sem nýtist íslensku samfélagi sem best þannig að gróðinn, arðurinn og uppbyggingin sem af verður sitji eftir heima.

Til að 360.000 tonna álver megi rísa suður með sjó þarf að skrapa saman orku um gjörvallt suðvesturhornið, orku sem samsvarar heilli Kárahnjúkavirkjun. Þetta er með öðrum orðum gríðarleg óseðjandi orkuþörf.

Ein af grundvallarspurningum sem þarf að svara í þessum efnum er: Hvar er orkan? Hvar er orkan sem fólk ætlar að skrapa saman hér á suðvesturhorninu til þess að reyna að seðja þetta óseðjandi álver? Eru orkulindirnar yfir höfuð til? Liggur það fyrir svart á hvítu hvað hægt er að nýta? Og ef þær eru til, er þá skynsamlegt, sjálfbært og framsýnt að nýta þær nánast allar í einmitt þetta?

Til þess að vita svörin við öllum spurningum hljótum við að vilja byggja á þekkingu á umhverfinu, ítarlegri, faglegri og vandaðri þekkingu.

En þá er komið að því sem þessi tillaga er að reyna að taka til en það er hversu gríðarleg óvissa ríkir um hve mikil orka er til á suðvesturhorninu til þess að seðja slíka óseðjandi orkuþörf ef fólk ætlar yfir höfuð að fara þessa leið.

Í Viðskiptablaðinu 18. febrúar 2010 var farið yfir þessi mál og gerð úttekt. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er m.a. birt ítarleg grein sem Sigmundur Einarsson jarðfræðingur skrifar, „Hinar miklu orkulindir Íslands“, þar sem hann einmitt kemst að þeirri niðurstöðu að væntanlegir virkjunarkostir á Suðvesturlandi verði allir þurrkaðir upp, plús orka frá virkjunum í neðri hluta Þjórsár fyrir álver í Helguvík, samt dugi það líklega ekki til.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns þarf 360.000 tonna álver gríðarlega orku eða sem samsvarar 630 megavöttum.

Í úttekt Viðskiptablaðsins sem ég nefndi áðan kemur ýmislegt forvitnilegt fram. Þar er m.a. tafla um raforkuframleiðslu og virkjunarkostina á suðvesturhorninu í dag. Ég ætla að lesa aðeins upp úr henni vegna þess að við ræðum ekki nógu mikið um þessa hluti í því hugarfari og þeirri mýtu sem við erum stöðugt að eiga við, að hér sé bara allt fljótandi í orku sem ekkert mál sé að ná í.

Raforkuframleiðslan á suðvesturhorninu eins og hún lítur út í dag, þar er Reykjanesvirkjun, 100 megavött. Í nýrri skýrslu Orkustofnunar kemur fram að þetta er ágeng nýting. Þetta er ekki sjálfbær nýting. Hágildi rafafls Reykjanesvirkjunar er 81 megavatt, ef svæðið á að endast í 50 ár, en miðgildi nýtingarinnar er 45 megavött en það blasir við að 100 megavatta vinnsluleyfi mun takmarka mjög þann tíma sem þessi vinnsla getur borið. Svartsengi er 70 megavött, Nesjavellir eru 120 megavött, smávirkjanir eru 9 megavött, Hellisheiðarvirkjun er 213 megavött. Samtals eru þetta 512 megavött. Þegar eru frátekin af þessu 485,6 megavött. Hvað er þá eftir til ráðstöfunar fyrir álver? Það eru 26,4 megavött. Hver er svo fyrirhuguð orkuframleiðsla? Það er viðbót í Hellisheiði 90 megavött, Reykjanesvirkjun er 80 megavött, þar vantar starfsleyfi og nota bene það sem ég sagði áðan um stöðuna á Reykjanesvirkjun nú þegar. Eldvörp, 70 megavött, það er nú þegar í mjög flóknu skipulagsferli, en eins og við vitum þurfa Eldvörp að sækja heimild til Grindavíkurbæjar og þar er mjög víðtækt skipulagsferli í gangi og allsendis óljóst í raun hversu mörg megavött eru þar til staðar. Þetta eru upplýsingar sem eru gefnar hér en þarf að ganga úr skugga um, en þær eru svo sannarlega ekki í hendi til nýtingar. Krýsuvík er sama dæmi. Þar er flókið skipulagsferli í gangi því að á því svæði eiga í rauninni þrjú sveitarfélög, þ.e. Hafnarfjarðarbær, Grindavík og Vogar, aðkomu þannig að þetta er í flóknu og löngu ferli. Þar er gríðarleg óvissa um heimildir og þar er líka mjög mikil óvissa um hversu mikil orka sé til staðar.

Ein opinber tala segir að þar séu til staðar um 460 megavött. Sigmundur Einarsson jarðfræðingur telur þar vera til staðar um 160 megavött. En hér notum við hæstu tölurnar. Í Hverahlíðarvirkjun eru eyrnamerkt 90 megavött, samtals til ráðstöfunar 240 megavött.

Orkan sem er til staðar, með fyrirhugaðari orku þar sem hæstu tölur eru nýttar, nær ekki að fullnægja álveri. Ef umframorku Landsvirkjunar er bætt við eru þar 30–50 megavött. Varðandi neðri hluta Þjórsár liggur fyrir samþykkt Landsvirkjunar um að nýta orkuna þar ekki til frekari álvera, en (Forseti hringir.) ef fólk ætlar að brjóta þá samþykkt og nýta Þjórsá í álver Helguvíkur þá koma 266 megavött til viðbótar. (Forseti hringir.) Bitruvirkjun, ef fólk ætlar að ná í hana líka, þá eru þar 135 megavött. Hvað vantar svo enn þá fyrir álver? 173,6 megavött. (Forseti hringir.) Ef stækkun Reykjanesvirkjunar gengur ekki eftir vantar 253,6 megavött.

Með öðrum orðum, það verður að eiga (Forseti hringir.) sér stað vönduð, fagleg og ítarleg vinna. Opinberar stofnanir (Forseti hringir.) ríkisins verða að fara gaumgæfilega yfir hvað verið er að tala um, hvaðan orkan á að koma …

(Forseti (SF): Forseti vekur athygli á því að tími ræðumanns er löngu liðinn.)

Ég biðst afsökunar, forseti, ég lýk máli mínu núna, eftir tvö orð.

… hvaðan orkan eigi að koma og hvort við viljum síðan í framhaldinu virkilega (Forseti hringir.) eyða henni allri í eitt álver.