138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

úttekt á virkjunarkostum fyrir álframleiðslu.

91. mál
[15:31]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp og gef hv. þingmanni þar með tækifæri til að tala frekar og lengur um þetta mál. Ég get alveg tekið undir með þingmanninum um að við þurfum upplýsingar. Það er alltaf af hinu góða að þeirra sé leitað. Þingmaðurinn vísaði í könnun og virtist vera mjög hissa yfir því að 31% kjósenda Sjálfstæðisflokksins vill ekki slá af umhverfiskröfum, en ég get upplýst hv. þingmann um að þrátt fyrir að hún kannski trúi því ekki viljum við sjálfstæðismenn sem viljum nýta orkuna sem við höfum í þessu góða landi okkar ekki gera það á kostnað náttúrunnar. Við viljum gera það í sátt og samlyndi og okkur hv. þingmann greinir á um mörkin á milli nýtingar og þess að njóta náttúrunnar. Það er það sem þessi endalausa deila snýst um.

Það sem mig langar til að ræða líka við hv. þingmann í þessu andsvari er eiginlega atvinnumálin. Þingmaðurinn lýsti skoðun sinni á álframleiðslu í löngu máli og er ekkert sérstaklega hlynnt henni. Það þarf að nýta orku í margvíslegan annan iðnað ef við ætlum að byggja hér upp atvinnustarfsemi. Ég nefni álverið í Helguvík, sem nota bene er í þjóðhagsspám ríkisstjórnar Vinstri grænna og í áætlunum fjármálaráðuneytisins, en verkefni eins og gagnaver þarf líka orku.

Spurning mín til þingmannsins er: Má yfir höfuð nýta eitthvað af orkunni í huga Vinstri grænna? Ef ekki má nota orkuna til álframleiðslu eða annarrar atvinnuuppbyggingar bið ég þingmanninn að útskýra fyrir mér hvað megi gera, hvaða atvinnutækifæri hv. þingmaður (Forseti hringir.) geti boðið t.d. okkur Suðurnesjamönnum í staðinn fyrir álver í Helguvík, í staðinn fyrir einkaspítala, í staðinn fyrir (Forseti hringir.) áformaða flugvélastarfsemi.