138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

úttekt á virkjunarkostum fyrir álframleiðslu.

91. mál
[15:36]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt, fólkið hefur nefnilega fullt af hugmyndum. Fólkið á Suðurnesjum er búið að koma með hugmynd eftir hugmynd — sem hvað hefur gerst með? Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna stendur í vegi fyrir þeim. Það er vandamálið sem við stöndum frammi fyrir núna. Það snýst ekki allt um stóriðju. Sjúkrahúsmálið sem ég nefndi áðan snýst ekki um stóriðju, það snýst einmitt um að virkja hugvit fólks af Suðurnesjum sem er nóg af. Þar er mikið af hugviti og margt atvinnulaust, hæft starfsfólk á heilbrigðissviði sem bíður eftir að fá vinnu. Það sama á við um flugvirkja og verkfræðinga sem gætu farið að sýsla með þessar flugvélar sem við erum að ræða um.

Af því að þingmaðurinn nefndi líka ferðaþjónustuna finnst mér umræða Vinstri grænna lýsa þar ákveðinni hræsni. Ferðaþjónustan er í lagi, en hvernig koma þessir ferðamenn hingað til landsins? Koma þeir ekki með reykspúandi flugvélum sem eru búnar til úr áli? Getur það verið? Hvernig ætlar hv. þingmaður að koma þessum ferðamönnum hingað til lands? Keyra þeir ekki um í reykspúandi rútum búnum til úr áli? Ganga þeir ekki um landið sem er ákveðinn átroðningur? Af hverju er þetta í lagi en það er ekki í lagi að nýta hugvit, orkuauðlindir, af skynsemi? Ég er ekki að tala um neitt með neinum ágengum hætti, ég er ekki að mæla fyrir einhverjum risalausnum heldur deili ég þeirri skoðun með hv. þingmanni að við eigum að horfa á marga þætti og ekki setja öll eggin í sömu körfuna.

Af því að álverið í Helguvík var líka nefnt hérna er rétt að halda því til haga að ekki er búið að veita starfsleyfi fyrir 340.000 tonna álveri. Það sem er búið að veita leyfi fyrir (Forseti hringir.) eru fyrstu tveir áfangarnir, það eru 160.000–180.000 tonn. Það er til næg orka fyrir því. Það er svo fyrirtækisins að ákveða hvort það (Forseti hringir.) fer í frekari stækkun á því en það gerir fyrirtækið náttúrlega ekki nema orkan sé til.