138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

úttekt á virkjunarkostum fyrir álframleiðslu.

91. mál
[15:51]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Mig langar að koma hingað upp og lýsa yfir stuðningi mínum við þetta mikilvæga mál. Hér er verið að nálgast orkusölu úr annarri átt en gert hefur verið hingað til og eftir að hafa skoðað röksemdirnar fyrir þessu máli var náttúrlega kominn tími til og það kannski fyrir löngu. Ég ætla ekki að tala lengi um þetta mál en mig langar að tæpa á nokkrum mikilvægum atriðum sem eru hér í greinargerð og fylgiskjali með frumvarpinu. Hér segir t.d., með leyfi forseta, um orkunýtingu fyrir þessi fyrirhuguð álver:

„Álver í Helguvík og á Bakka mundu soga til sín nær alla orkuna frá orkulindum á Suður-, Suðvestur- og Norðausturlandi, ekki bara frá jarðvarmavirkjunum heldur einnig frá vatnsaflsvirkjununum. Þar með er farin nánast öll hagkvæmasta orkan í landinu.“

Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, segir m.a. í einni af sinni mörgu greinum um þetta mál, með leyfi forseta:

„Hvert starf í stóriðju kostar hins vegar a.m.k. eitt þúsund milljónir, en nýsköpunarstörfin að jafnaði um 25–30 milljónir hvert og skapa mun fleiri afleidd störf heldur en stóriðja.“

Á fleiri stöðum er tæpt á þessu máli en niðurlag fylgiskjals, sem er greining Sigmundar Einarssonar jarðfræðings á mögulegum virkjunarkostum í þessu samhengi, er svolítið harkalegt, en þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Því miður er það svo að stóri sannleikurinn um hinar miklu orkulindir Íslands er tómt plat. Þetta eru skýjaborgir sem eru byggðar á raupi óábyrgra manna sem ógerlegt er að vita hvort eða hvað eru að hugsa. Það er fráleitt að æða út í framkvæmdir við álver eins og gert er í Helguvík og halda að það reddist einhvern veginn þegar fyrirsjáanlegt er að það reddast ekki.“

Frú forseti. Okkur ber að fara vel með auðlindirnar. Þær eru ekki ótakmarkaðar þó að þær séu miklar og skaðinn af því að fara svo djúpt í þær eins og margir vilja er óbætanlegur. Ég leyfi mér að benda á annað í þessu samhengi en það er framsal auðlindanna til t.d. erlendra aðila, eins og við stöndum nú frammi fyrir með Magma Energy. Mig langar að velta hér upp tveimur dæmum um tvö lönd. Annað þeirra býr yfir miklum olíuauðlindum, hefur nýtt þær í áratugi sjálft með sínum eigin ákvörðunum með sínum eigin aðferðum og þetta land er eitt ríkasta land í heimi í dag. Hitt landið á ekki minni olíuauðlindir og hefur ekkert nýtt þær neitt skemur en hefur hins vegar framselt nýtingarréttinn og ákvörðunarréttinn varðandi nýtingu þessarar auðlindar til erlendra fyrirtækja. Þetta ríki er eitt af fátækustu ríkjum í heimi. Nöfn þessara landa hefjast bæði á N, annað þeirra er Noregur, hitt er Nígería. Þetta eru sams konar auðlindir sem gefa sams konar arð en niðurstaðan er gjörólík, fyrst og fremst vegna þess hvernig nýtingin á auðlindunum er. Við verðum að hafa þetta í huga þegar við erum að fara að nýta þær auðlindir sem eftir eru hér á landi hvað orkuna varðar.

Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson tæpti hér á kostnaði við hvert starf í samhengi við orkuna sjálfa. Það kostar u.þ.b. eitt megavatt af virkjaðri orku að búa til eitt starf í álveri. Það bara er þannig. Fyrir hver 18 störf í ylrækt þarf eitt megavatt af orku, þ.e. það er 18 sinnum starfsvænna að virkja orkuna og nota hana í ylrækt en í álveri. Þessum frösum hefur oft verið slegið fram. Kálver í Helguvík og kálver á Bakka. Ef markmiðið með orkunýtingunni er að búa til mörg störf verður að fara einhverja aðra leið en gert hefur verið hingað til.

Það verður líka að horfa á þetta í því samhengi, eins og ég tæpti á áðan, að þetta snertir mjög hina stórkostlegu náttúru Íslands. Hér búum við við rammaáætlun um virkjun vatnsafls og jarðvarma, annar hluti þeirrar áætlunar var að koma út. Það eru deilur um þær aðferðir sem þar eru notaðar. Hvað svo sem þeim deilum líður er engu að síður verið að stíga þar skref í rétta átt hvað aðferðafræði um umfjöllun um auðlindir varðar. En í því samhengi má heldur ekki horfa fram hjá því mikilvæga plaggi, náttúruverndaráætlun. Í þessu samhengi er ekki nóg að gera náttúruverndaráætlun til fjögurra ára í einu. Það þarf að gera náttúruverndaráætlun til 30 ára í einu. Það verður að horfa á þessa hluti í stærra samhengi.

Þessi tillaga til þingsályktunar er skref í rétta átt hvað aðferðafræði og nálgun að virkjunarkostum varðar. Ef við förum ekki að hugsa hlutina öðruvísi munum við einfaldlega standa frammi fyrir því innan mjög skamms tíma að ódýrustu og jafnvel einu og bestu virkjunarkostirnir sem eftir verða verða þeir að loka þeim álverum sem fyrir eru í landinu. Hvað ætla menn að gera? Ég bara leyfi mér að segja: Hvað ætla menn að gera?

Þessi tillaga vekur upp þarfa umræðu og margar spurningar. Það verður athyglisvert að sjá hvað kemur út úr þessu starfi Orkustofnunar ef þessi þingsályktunartillaga verður samþykkt. Ég held að það muni gjörbreyta umræðu um orkumál til frambúðar ef það verður gert og ég hvet til að svo verði.